Nú eru línur aðeins farnar að skýrast í íslenskum fótbolta og kannski ekki úr vegi aðeins að líta á það sem er að baki áður en rýnt er í næstu skref. Karlapistillinn fyrst og svo stelpurnar á næstunni.
Ég held að efsta deildin sé að detta í það form sem hún verður í allt til enda. KR og ÍBV virka ákveðnust í sínum aðgerðum og flest að falla með þeim. Þegar það kemur saman næst yfirleitt árangur og þessa stundina finnst mér fátt annað í spilunum en baráttu milli þeirra um titilinn.
Rétt neðan við eru svo Valur, FH, Fylkir og Breiðablik. Allt lið sem eru með feykigóð lið og þjálfara, en virðast vanta aðeins uppá að henda sér af krafti í toppbaráttuna, þó ekki sé það útilokað. Valsmenn, Fylki og jafnvel Breiðablik vantar að mínu mati "afgerandi" leikmann til að klára alla leiki, Valsarana sóknarlega en hin tvö varnarlega. Í þessum liðum eru þó leikmenn sem hafa hæfileikana til að stíga upp og bregðast við - þá gætu þau farið af krafti í slaginn um dolluna.
FH liðið hefur allt sem þarf til að bæta við titlasafnið sitt, en virðist ekki hafa náð takti. Þegar ég hlusta á meistara Heimi í viðtölum fæ ég stundum á tilfinninguna að hann sé að ergja sig á skorti á baráttuanda, sem mér finnst þó kannski frekar hljóma á þann veg að sumir í leikmannahópnum séu orðnir "saddir" og farnir að taka árangri sem sjálfsögðum hlut. Þannig varð FH ekki meistaralið, einmitt vinnumórallinn og grimmdin kom liðinu í hóp þeirra risa sem það á heima í og þann neista þurfa hvít-svörtu strákarnir að finna nú strax ef þeir ætla sér í alvöru baráttu!
Fallbaráttan verður hörð. Framararnir virðast vera komnir á kaf í lánleysi en ég vænti þess að þar verði styrktur leikmannahópurinn í glugganum, ef ekki á illa að fara. Þór, Víkingur og Grindavík virðast ætla að vera í þessum slag og þar held ég að dreifbýlisliðin tvö séu með sterkt vopn í sínum heimavöllum. Grindavík er rútinerað fallbaráttulið þar sem alltaf ríkir yfirvegun í þeirri baráttu og hefur skilað liðinu ótrúlega langri veru í efstu deild. Palli Gísla er búinn að virkja hið ótrúlega stóra Þórshjarta, sem er verulegur árangur! Ég held að það sé ekki öllum ljós krafturinn sem býr norðan Glerárinnar á Akureyri, þar er á ferð gríðarlega samstilltur hópur sem er heldur betur tilbúinn í ýmislegt. Það var engin tilviljun þegar Mjölnissnillingarnir völdu "deyja fyrir klúbbinn" sitt slagorð!
Baráttan í 1.deildinni virðist vera að fara í fyrirfram líklegar skorður. ÍA er þar sterkasta liðið, blanda af miklum reynsluboltum og ungum og frískum leikmönnum. Fátt held ég að komi í veg fyrir að Skagamenn eigi lið í efstu deild á næsta ári, nokkuð sem á auðvitað að vera skylda. Ekkert sveitarfélag á landinu er meiri fótboltabær og nú virðast þeir gulu ætla að standa undir þeirri pressu að fara upp. Selfoss er að ná að stilla saman strengi úr ólíkum áttum og hafa nú í síðustu umferðum fært sig upp í 2.sætið.
Þessu spáði ég í vor, fannst líklegast að þessi tvö lið færu upp en þar fyrir neðan yrði ómögulegt að spá fyrir um sæti því liðin í þeim hópi eru ótrúlega jöfn. Enda bara 4 stig sem skilja að liðið í 3.sæti og 10.sæti! Þess vegna er erfitt að ætla sér að lesa eitthvað í þann 8 liða pakka, þar eru lið sem gætu með nokkrum sigrum barist um að fara upp en með nokkrum töpum dottið niður í fallslag.
Neðstu tvö liðin í dag eru svo HK og Leiknir. Það sem ég sá til HK í vor leit ekki vel út og því kom mér ekki á óvart þeirra erfiða byrjun, nú er bara spurningin hvort þjálfaraskiptin færa þeim gæfu. Það gerist stundum en alls ekki alltaf! Gengi Leiknis er eitthvað sem kemur mér verulega á óvart. Klúbburinn hefur vissulega fengið á sig brotsjói, fyrst í síðasta leik liðins tímabils og síðan aftur nú í vor. En mín upplifun af þeim "í Efra" hefur verið sú að í mótlæti eflast Leiknismenn mest og því ekki skýring á vanda þeirra.
Gæi er rétti maðurinn til að leiða þá út úr vandanum, í liði þeirra býr geta til að vinna sig út úr vandanum, en þó er það vissulega þannig að þegar lið hefur undirbúið sig undir toppbaráttu en lendir svo í botnströggli verður stundum andinn og viljinn erfiður og þá eru menn á vondum stað!
2.deildin er svo sú sem er að spila óvæntast miðað við "sérfræðingaspár". Toppliðin tvö hafa menn verið að bíða eftir að fatist flugið, en þegar þetta langt er komið í mót eru menn yfirleitt búnir að finna sinn farveg og ég sé ekkert í spilunum að þau séu tilbúin að hætta núna. Ég sá fjölda leikja í þessari deild í fyrra og verð að segja að mér kemur árangur Hattara ekki á óvart! Á Egilsstöðum hafa menn verið að vinna flotta vinnu með sína stráka síðustu 5 ár, fengið góða þjálfara til að kenna sínum heimastrákum og veitt þeim þolinmæði. Vonandi taka fleiri dreifbýlingar mark á þeirri vinnu sem Héraðsbúarnir hafa unnið, því það skilar fótboltanum langt. Eysteinn Húni var nú alltaf líklegur til að verða hörkuþjálfari, svo að ef ég væri veðmálakall myndi ég spá því að langþráður draumur um 1.deildarsæti á Egilsstöðum myndi nú rætast.
Jón Aðalsteinn hefur svo verið að vinna með Hvergerðingum um stund og hægt og rólega byggt upp baráttuanda á meðal þeirra blásvörtu. Hann gerir kröfur á sig og sína leikmenn og ég er viss um að Hamarsmenn eru að græða á því að hann er nú kominn með sinn stimpil á liðið sem virkar á mann sem lið með mikið hjarta.
Þar fyrir neðan eru svo kanónurnar í deildinni, sem ætla sér upp en þurfa að fá meiri stöðugleika. Reynir, Njarðvík og Fjarðabyggð telja sig vera "næstefstudeildarlið" hið minnsta og munu gera atlögur að efsta sætinu. Þar fyrir neðan eru Afturelding, KF, Tindastóll/Hvöt og Dalvík/Reynir, allt lið sem eru að byggja upp lið sem ætla sér ofar, en ekki alveg tilbúin í toppslag enn. Árborg og ÍH virðast eiga erfitt í deildinni en vonbrigði sumarsins hingað til eru Völsungar á Húsavík. Lið sem er vel spilandi og ætlaði sér miklu stærri hluti en að vera í fallbaráttu. Þar eru þeir þó eftir 6 töp í 8 leikjum, og eins og hjá Leikni verður aðalmálið að virkja leikmennina til þeirrar baráttu í stað þeirrar sem þeir ætluðu í, við toppinn.
3.deildin hefur svo aldrei verið skipuð eins mörgum góðum liðum og hreinlega ógerningur að ætla sér að spá um endirinn þar á bæ! Álftanes, Kári, Grundarfjörður, Berserkir, Víðir, KB, Augnablik, Léttir, KFR, Ýmir, Sindri, Magni og Leiknir eru allt lið sem eiga góðan möguleika á að færa sig úr neðstu deild og í fyrsta skipti í sögunni held ég að hægt væri að fara að skoða breytingu á fyrirkomulagi deildarinnar í átt að einni deild með 12 liðum. Það myndi fjölga gæðaleikjum fyrir leikmenn deildarinnar og þar með fjölga góðum fótboltamönnum á Íslandi og gæðum og aðstæðum boltans.
En auðvitað er langt eftir, því Íslandsmót er langhlaup, en ekki spretthlaup. Það er þó yfirleitt þannig að þegar um 1/3 er kominn hafa myndast um 80% líkur á endanlegum úrslitum og þannig held ég að sé nú komið. Vissulega opnast leikmannagluggi í júlí og þá geta menn eitthvað "lagað til" í sínum leikmannahópum, en undanfarin ár hefur þó sá gluggi ekki alltaf skilað miklum árangri, frekar en janúarglugginn í Evrópu.
En sjáum til...