Man Utd vill Ait-Nouri og hefur líka áhuga á Nkunku - Fulham og Leicester vilja fá Ferguson lánaðan - Dyche með fullan stuðning
banner
   mið 01. febrúar 2012 17:15
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Að vera eða vera ekki enskur
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Luis Suarez og John Terry.
Luis Suarez og John Terry.
Mynd: Getty Images
John Terry í leiknum umtalaða gegn QPR.
John Terry í leiknum umtalaða gegn QPR.
Mynd: Getty Images
Tvö gríðarlega umtöluð mál komu upp á enskum fótboltavöllum seint á síðasta ári. Í fyrra málinu var leikmaður ásakaður um kynþáttaníð frá mótherja sínum en í því síðara var leikmaður ásakaður um kynþáttaníð frá mótherja sínum.

Þessi tvö mál voru svo sett í tvo misjafna farvegi. Tilviljun? Það er enginn að fara að segja mér það.

Það er nefnilega munur á því að vera erlendur leikmaður í enska boltanum eða enskur landsliðsmaður. Allir fótboltaáhugamenn sem fylgjast grannt með enska boltanum einfaldlega vita þetta.

Það er tekið öðruvísi á málum þegar enskar stjörnur eiga í hlut og þá er hægt að horfa á ýmsa þætti leiksins. Hugo Rodallega skýtur í varnarmann og inn, það er sjálfsmark. Frank Lampard skýtur í þrjá varnarmenn og inn, það er mark skráð á Lampard. Sebastien Squillaci rænir upplögðu marktækifæri, fær rautt. Gary Neville rænir upplögðu marktækifæri, sleppur.

„Það er víst þetta video þar sem sést alveg hvað átti sér stað en ég veit ekki hvernig verður tekið á þessu. Ætli það verði nokkuð gert? Það er alltaf þannig þegar einn af þessum stóru leikmönnum á í hlut. Ég á ekki von á því að það verði eitthvað gert í þessu," sagði íþróttamaður ársins, Heiðar Helguson, eftir að liðsfélagi hans Anton Ferdinand sakaði fyrirliða enska landsliðsins, John Terry, um kynþáttaníð.

Það sitja ekki allir við sama borð og það kristallast í samanburði á máli John Terry og máli Luis Suarez. Ég tek upp hanskann fyrir hvorugan aðila en það hrópandi ósamræmi sem er í gangi í enskum fótbolta er í raun brandari.

Fyrirsjáanlegt leikrit
Enska knattspyrnusambandið vill ekki hafa þann stimpil á sér að taka ekki á kynþáttafordómum á vellinum. Enska knattspyrnusambandið vill heldur ekki skemma möguleika enska landsliðsins á komandi Evrópumóti. Nú voru góð ráð dýr.

Fjölmiðlar fjölluðu mikið um ásakanirnar frá Anton Ferdinand og eftir mikinn þrýsting frá almenningi var ljóst að enska knattspyrnusambandið (FA) þurfti að bregðast við. Þá skyndilega fær lögreglan tölvupóst frá einhverjum aðila sem kvartar yfir málinu. Skyndilega var engin ábyrgð lengur á FA, málið var orðið lögreglumál. Tilviljun? Efast um það.

Á meðan gat enska knattspyrnusambandið tekið fyrir aðrar ásakanir á hendur Luis Suarez. Mikið var gert úr því máli í enskum fjölmiðlum og Suarez og Liverpool fengu harða gagnrýni í blöðunum, mestmegnis réttilega gagnrýni að mínu mati, meðan John Terry var ekki stimplaður. Ekkert samræmi í því.

Nú hefur Suarez lokið afplánun á sínu banni sem hann var dæmdur í fyrir kynþáttaníð í garð Patrice Evra. Hefði hans mál farið sömu leið og mál Terry hefði ekki verið hægt að dæma hann vegna skorts á sönnunargögnum. Fyrir alvöru dómstólum verður allt að vera 100% en ekki 50,1%.

Það er ekki mjög flókið lesa í þetta leikrit. Niðurstaða dagsins á ekki að koma neinum á óvart. Það var alveg ljóst að málið færi í þann farveg að fyrirliði Englands, sem haldið hefur bandinu í gegnum skúraveður, gæti spilað á Evrópumóti landsliða næsta sumar án þess að vera stimplaður kynþáttaníðingur.

Það átti semsagt að taka málið fyrir í dag. Terry stendur fastur á sínu og neitar sök. Howard Riddle dómari tekur svo þá ákvörðun að best sé að fresta réttarhöldunum þar til 9. júlí (þegar úrslitaleikur EM er að baki) vegna þess að erfitt sé að yfirheyra leikmenn Chelsea meðan á tímabilinu stendur! Hvaða bull er þetta, mennirnir eiga að mæta fyrir dóm þegar þeim er sagt að mæta.

Englendingar hafa verið í fararbroddi þegar kemur að því að benda á spillingu og vafasöm vinnubrögð innan FIFA, þeir ættu kannski að byrja á því að líta sér nær?
Athugasemdir
banner
banner