Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   lau 04. febrúar 2012 08:00
Magnús Valur Böðvarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Innlit á velli þriggja liða í neðri deildum Englands
Magnús Valur Böðvarsson
Magnús Valur Böðvarsson
Heimavöllur Harrogate Town
Heimavöllur Harrogate Town
Mynd: Magnús Valur Böðvarson
London Road Stadium heimavöllur Peterborough
London Road Stadium heimavöllur Peterborough
Mynd: Magnús Valur Böðvarson
Stæðin öðrum megin á London Road
Stæðin öðrum megin á London Road
Mynd: Magnús Valur Böðvarson
Broadfield Stadium heimavöllur Crawley Town
Broadfield Stadium heimavöllur Crawley Town
Mynd: Magnús Valur Böðvarson
Stæðin á Broadfield stadium
Stæðin á Broadfield stadium
Mynd: Magnús Valur Böðvarson
Heimaliðið fær púðahúðaðar sessur, gestirnir ekki
Heimaliðið fær púðahúðaðar sessur, gestirnir ekki
Mynd: Magnús Valur Böðvarson
Hópur af íslenskum golfvalla- og knattspyrnuvallastarfsmönnum hélt nýverið til Englands þar sem farið var á sýningu og ráðstefnu tengda slíkum málum.

Undirritaður var einn af þeim sem var með í för og eyddi tveim síðustu dögum ferðarinnar í að skoða þrjá velli hjá neðrideildarliðum í Englandi.

Sýningin var haldin í "litlum" 70 þúsund manna bæ, Harrogate að nafni. Nafn þetta hringir líklega ekki mörgum bjöllum en bærin er rétt fyrir utan Leeds. Hluti hópsins fór að skoða völl Huddersfield, sem ég og Ómar Stefánsson vallarstjóri Kópavogsvallar misstum því miður af. Við vildum hinsvegar endilega kíkja á einhverja velli en vegna tímaskorts gafst lítill tími til að heimsækja stærri velli á svæðinu.

Harrogate Town
Fyrsti völlurinn sem við kíktum á var fyrir algjöra tilviljun en það er heimavöllur bæjarliðsins Harrogate Town F.C. sem er lið í sjöttu efstu deild Englands. Liðið er í eigu vel efnaðs manns sem er strax byrjaður að leggja pening í klúbbinn og hyggst bæta heimavöll liðsins Wetherbyroad, eða CNG stadium (CNG er aðal styktaraðili félagsins).

Völlurinn tekur 500 manns í sæti en minniháttar framkvæmdir voru hafnar til að stækka stúkuna. Völlurinn getur hinsvegar tekið allt að 3800 manns en 2300 manns geta verið í stæðum undir þaki eins og tíðkast í neðri deildum Englands.

Þegar við komum á staðinn var vallarstarfsmaður, líklega um 90 ára gamall sem tók vel á móti okkur og sagði okkur frá klúbbnum og til stæði að rífa völlinn upp, setja nýtt undirlag og hækka hann um 40-50 cm. Völlurinn var ekki í nægilega góðu ástandi, rennandi blautur og frekar tættur en það er nokkuð eðlilegt á þessum tíma.

Lítið er um kunnuleg nöfn í leikmannahóp liðsins og stærsta nafnið er líklega Paul Heckinbottom sem kom upp í gegnum yngri flokka lið Man Utd. Þá hefur liðið einnig leikmann að nafni Paul Brayson sem er lágvaxnasti leikmaður í sögu úrvalsdeildarinnar 1,63 á hæð. Fátt annað er hægt að segja um þetta stórskemmtilega lið sem er um miðja deild í Blue Squre North deildinni. Þess má til gamans geta að líklega frægasti íbúi bæjarins er Danny Mills fyrrum leikmaður Leeds Utd og fleiri liðum.

Peterborough
Næst var haldið til Peterborough sem var skemmtilega í leiðinni til London og ákváðum við að kíkja á völlinn þar London Road Stadium. Peterborough er 150 þúsund manna bær og hefur liðið verið að spila í Championship og League 1 deildinni og er nú í Championship deildinni.

Völlurinn var ekkert í mikið betra ástandi heldur en völlurinn í Harrogate en verktakar sjá algjörlega um allt viðhald á vellinum. Völlurinn tekur rúmlega 15 þúsund manns þar af 8605 í glæsilegrum stúkum sinnhvorum megin á vellinum. Nái liðið að stimpla sig inn í deildina og verða stabílt lið í næst efstu deild þá hefur eigandinn lofað nýjum velli.

Liðið hefur ágætis æfingaaðstöðu á skólavelli í nágrenninu. Þar sem enginn vallarstarfsmaður var á vellinum náðum við ekki að skoða meira frá Peterbrough. Stjóri liðsins er sonur Alex Ferguson, Darren Ferguson og rétt labbaði framhjá okkur þegar við yfirgáfum svæðið en náðum ekki tali af honum, því miður.

Crawley Town
Í seinustu heimsókn okkar kíktum við á heimavöll Crawley Town sem leikur í Coca Cola league 2 sem er fjórða efsta deild í Englandi. Liðið sem situr í 2.sæti deildarinnar stefnir hraðbyri á league 1 þrátt fyrir að vera nýliðar í deildinni eftir að hafa unnið utandeildina á seinasta tímabili.

Völlur liðsins Broadfield Stadium kom okkur mjög á óvart. Völlurinn var í mjög góðu ástandi miðað við árstíma. Tveir vallarstarfsmenn voru í fullu starfi við viðhald á vellinum og æfingavelli liðsins. Völlurinn er með stúku sem tekur rúmlega 2000 manns og hefur stæði fyrir 3000 manns. Þar sem liðið er í einu af fjórum efstu deildum þá hafa þeir ekki leyfi til að selja í stæðin og því er í byggingu stúka sem tekur 2150 manns og er áætlað að verði tilbúin í mars á þessu ári.

Liðið virðist vera á mikilli uppleið og er liðið komið í 16-liða úrslit FA bikarkeppninnar og féll út fyrir Manchester United á seinasta ári. Svo virðist sem peningahliðin hjá Crawley vera í ágætu lagi af því sem vallarstarfsmennirnir tjáðu okkur að ef stjórinn óskaði eftir leikmanni þá fengi hann fjármagn til leikmannakaupa.

Liðið hefur sterkan leikmannahóp fyrir lið í 4. efstu deild og þekkja aðdáendur Football Manager leiksins líklega stóran hluta leikmanna liðsins. Fyrir tímabilið var Sergio Torres keyptur á metfé 100 þúsund pund sem er mjög há upphæð fyrir leikmann í þessari deild.

Enginn þessara valla sem við skoðuðum var með hita undir völlum sínum og vöktu stæðin sérstaklega athygli. Í efstu fjórum deildum á Englandi eru stæðin ekki lengur leyfð en þau leyfð í neðri deildunum. Það vakti athygli hversu mikla áherslu knattspyrnusamband Englands setur í að lið séu með stúku með sætum, sama hvaða deild liðið er í.

Miðað við hvernig áhorfendaaðstaða er hjá öllum þessum liðum þá er þetta eitthvað sem öll lið í þrem efstu deildum á Íslandi ættu að þurfa að hafa þó lítil væri. Starsmenn vallarins hjá Crawley sjá um nær allt á vellinum sjálfum á meðan verktakar sjá um allt á vellinum hjá Peterborough og Harrogate. Reyndar sér aldraði vallarstarfsmaðurinn í Harrogate um sláttinn sjálfur.

Við vorum afskaplega svekktir að ná ekki að kíkja á einn nýjasta völlinn á Englandi, American Express stadium, sem Brighton Hove & Albion leikur á en sá völlur inniheldur gjörsamlega allt sem góður völlur þarf á að halda. Við vorum þó mjög hrifnir af velli Crawley Town sem var mjög flottur, í góðu ástandi miðað við árstíma. Hér til hliðar eru nokkrar myndir af völlunum.

Magnús Valur Böðvarsson
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner