Ég er einn af þeim sem segir að Leo Messi sé sá besti. Ég minnist ekki einu sinni á Ronaldo í þessu samhengi. Messi er hundrað skrefum framar en Ronaldo.
Ég las nýverið bók sem heitir „Barca - the making of the greatest team in the world". Já einfaldur titill. Einn kafli fjallar um uppgang Messi í Barcelona liðinu og mér þótti hann svo merkilegur að ég ákvað að snara nokkrum setningum úr bókinni upp á íslensku.
Þegar Messi var að koma upp voru tveir Brassar í liði Barcelona sem Messi leit mjög upp til. Þeir hugsuðu líka vel um litla Argentínumanninn. Litu á hann sem einn af fjölskyldunni. Þetta voru þeir Ronaldinho og Deco (já ég veit að Deco spilar fyrir Portúgal en hann fæddist í Brasilíu).
Þegar Messi meiddist gegn Glasgow Celtic 2008 voru Deco og Ronaldinho fyrstir á vettfang. Athuga hvernig litli guttinn hefði það. Messi hafði verið í frábæru formi á meðan hinir voru byrjaðir að dala.
Marc Ingla, þáverandi varaforseti Barcelona, sagði við fjölmiðla eftir leikinn að Börsungar væru orðnir svolítið pirraðir á því hvað Messi væri brothættur. Þetta væri nú ekki í fyrsta sinn sem hann meiddist.
Og hvað gera bændur þá? Jú Börsungar bjuggu til plan fyrir hann. Hvað hann ætti að borða, hvaða teygjur hann ætti að gera og svo framvegis. Reyndu að koma í veg fyrir meiðsli en ekki laga þau.
Juanjo Brau, frægur fitness þjálfari á Spáni, var ráðinn til að vera með Messi á sínum snærum. Hann byrjaði að taka mataræðið í gegn og lét hann borða mikinn fisk, grænmeti og hollara fæði en hann hafði áður gert. Viti menn, líkaminn hans stökkbreyttist nánast. Messi var fljótari að ná sér og þessi litlu meiðsli hans hafa horfið.
En það var ekki bara að mataræðið og teygjur væru teknar í gegn. Ronaldinho og Deco voru einnig látnir fara. Ástæðan var einföld. Þeir voru að lifa hinu ljúfa lífi utan vallar. Borðuðu hvað sem er og skemmtu sér langt frameftir - kvöld eftir kvöld. Og þar sem þeir voru helstu áhrifavaldar í lífi Messi voru Börsungar hræddir um að Messi myndi detta í´ða.
Argentínumenn borða mikið af rauðu kjöti og kolvetnum. Messi var þar enginn undantekning. Börsungar óttuðust að ef hann finndi lyktina af næturlífinu líka myndi hann aldrei ná neinum hæðum á sínum ferli. Þannig það var ákveðið að selja Brassana tvo. 2007 voru þó nokkrir stjórnarmenn búnir að ákveða að veðja á Messi frekar en Ronaldinho.
Það sem mér finnst merkilegast í þessu öllu er að Messi er ekki bara náttúrutalent. Hann hefur þvílíkt fyrir því að vera á toppnum. Hann er ekki bara latur gaur frá Suður-Ameríku með mikla hæfileika. Hann ræktar þá nánast allan sólahringinn. Alveg eins og á að gera. Æfingin hún skapar nefnilega meistarann og mikið óskaplega hefði ég verið til í að hafa þann hugsunarhátt þegar ég var að spila.
Svo næst þegar það er æfing. Mætið fyrr, farið síðar. Teygið á. Borðið rétt. Drekkið vatn og svo framvegis. Ef þið eruð ekki viss. Leitið ykkur aðstoðar. Það eru fjölmargir gáfaðir næringaráðgjafar til og þannig fólk er alltaf til í að hjálpa. Það er nefnilega auðvelt að verða betri fótboltamaður eða kona. Það þarf bara að hafa smá sjálfsaga.
Athugasemdir