Man Utd vill Ait-Nouri og hefur líka áhuga á Nkunku - Fulham og Leicester vilja fá Ferguson lánaðan - Dyche með fullan stuðning
   mið 21. mars 2012 17:15
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Kean býr sig undir að reka lífverðina
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Mynd: Getty Images
Þeir voru algjörlega bugaðir stuðningsmennirnir sem ég hitti í Blackburn fyrir áramót þegar ég fór á leik Blackburn og West Brom. Þeir mættu á völlinn af skyldurækni frekar en til ánægju.

Ekkert nema fall blasti við liðinu. Steve Kean var talinn í sama gæðaflokki sem knattspyrnustjóri og Ronald McDonald. Indversku kjúklingabændurnir voru hættir að þora að mæta á völlinn. Ekki einn einasti stuðningsmaður virtist trúa því að liðið gæti bjargað sér.

Steve Kean fékk þó stuðning úr stúkunni og hluti áhorfenda sungu honum til heiðurs... því miður fyrir hann kom sá stuðningur frá áhangendum West Brom.

Síðan þetta var hefur ansi mikið magn vatns runnið til sjávar og eitthvað segir mér að stemningin fyrir utan Ewood Park sé öllu betri. Útlit er fyrir að Kean geti brátt sagt upp lífvörðunum sem hann réði til að tryggja öryggi sitt og fjölskyldu sinnar.

Kean hefur náð að rífa spilamennsku liðsins upp þrátt fyrir mikið mótlæti og að því er virtist vonlausa stöðu innan sem utan vallar. Umræðan var aðeins um hvort kæmi á undan: Sparkið eða fallið niður í Championship-deildina.

Þegar varnarnautið Chris Samba, að margra mati öflugasti leikmaður Blackburn, strunsaði óánægður í burtu í janúar til að baða sig upp úr Rússagulli héldu margir að þar færi síðasti naglinn í kistuna. Það hefur þó bara hjálpað liðinu að missa Samba og þá neikvæðu strauma sem virðast hafa fylgt honum í klefanum.

Skyndilega á Blackburn góða möguleika á að bjarga sér, er komið sex stigum fyrir ofan fallsæti og eftir allt saman er útlit fyrir að Steve Kean verði þjálfari í úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Þó Kean sé ekki orðinn vinsæll meðal stuðningsmanna Blackburn er hann kominn í skugga manna eins og Alex McLeish hjá Aston Villa og Terry Connor hjá Wolves. Þá eru athyglisverðir stjórnarhættir eiganda QPR mun meira í umræðunni í dag en Indverjarnir.

Leikmenn Blackburn hafa haldið haus þrátt fyrir allt sem á hefur gengið. Aldrei hafa þeir hætt að berjast, farið að sýna verkefninu áhugaleysi eða stjóranum óvirðingu. Heimamenn eru að spila stórt hlutverk í liðinu og það er eitthvað sem ekki má vanmeta. Er tryggðin sem Indverjarnir hafa sýnt Kean það rétta í stöðunni eftir allt?

Það má samt ekki byrja að fagna strax. Þó útlitið sé bjart er fótboltinn samviskulaus og sama hvernig fer má allavega búast við athyglisverðu sumri framundan í ævintýrinu um Blackburn.
Athugasemdir
banner
banner