Tímabilið í ár í Serie-A hefur verið með skemmtilegri tímabilum síðari ára. Velgengni ítalskra liða í Meistaradeildinni sýnir að deildin er að ná fyrri styrk á ný þótt hún eigi enn nokkuð eftir í land. Deildin er hnífjöfn og baráttu er að finna um titilinn, Evrópusæti sem og um að halda sér í deildinni.
Fyrir tímabilið var ljóst að þau lið sem myndu berjast um titilinn væru Milan og Juventus. Juventus eyddu miklum fjármunum í félagsskiptaglugganum líkt og þeir gera á hverju ári en í þetta skiptið virðist sem flest kaupin þeirra hafi heppnast vel. Antonio Conte verður einnig að hrósa fyrir að hafa byggt upp vel spilandi lið sem skiptist á að spila 3-5-2 og 4-3-3. Tilkoma Andrea Pirlo á miðjuna hefur einnig gert liðinu gott. Milan-stuðningsmenn hljóta að klóra sér í hausnum yfir því af hverju þeir losuðu sig við hann, því hann er að eiga eitt besta tímabil sitt í mörg ár.
Milanliðið hefur bætt sig töluvert frá því í fyrra og kom það bersýnilega í ljós í meistaradeildinni. Allegri sætti töluverðri gagnrýni fyrir tapið gegn Tottenham í fyrra, en í ár hefur hann náð að gera liðið stöðugra auk þess sem þeir hafa aukið breidd leikmannahópsins. Skemmst er að segja frá kaupunum á Maxi Lopez sem kom í stað Antonio Cassano sem greindist með hjartagalla í desember. Þeir sem hafa séð Maxi Lopez leika með Catania undanfarin ár vissu að hann er frábær framherji og hefur hann reynst Milan mikilvægur í þeim leikjum sem Zlatan nær sér ekki á strik.
Tilkoma Klose gert mikið
Baráttan um Meistaradeildarsætin er álíka hörð og titilbaráttan, ef ekki harðari. Napoli hafa lent í miklum vandræðum í deildinni og hafa tapað mörgum mikilvægum stigum gegn lakari liðum. Þeir verma hins vegar fjórða sætið eins og er en Udinese anda stöðugt ofan í hálsmálið á þeim. Lazio er þó það lið sem er að koma mest á óvart í efri hluta deildarinnar, og eru þeir í 3ja sæti. Tilkoma Klose gerði mikið fyrir liðið. Hernanes er þó sem fyrr potturinn og pannan í sóknarleik þeirra og hann hlýtur að fara að vekja athygli stærri liða enda hefur hann verið frábær hjá þeim í mörg ár. Stuðningsmenn Inter og Roma munu vera svekktir í lok tímabils enda liðin tvö að spila undir getu og væntingum.
Í tilfelli Roma er þó verið að byggja upp nýtt lið, nýir eigendur, Luis Enrique tók við þjálfarastöðunni og margir nýir leikmenn fengnir til félagsins. Inter hins vegar hafa í raun enga afsökun. Sneijder hefur verið skugginn af sjálfum sér og virðist skrifað í skýin að hann muni yfirgefa félagið í sumar. Aðrir leikmenn hafa ekki verið að spila vel og ör þjálfaraskipti hafa ekki gert félaginu gott. Þeir hófu tímabilið með Gasperini sem þjálfara en liðið virtist engan veginn tilbúið að spila hans 3-4-3 leikkerfi og var hann rekinn eftir aðeins örfáa leiki. Claudio Ranieri tók við og hefur gengi liðsins batnað örlítið en ekki nægilega til að talið verði að Ranieri fái að þjálfa liðið áfram á næsta ári.
Catania komið á óvart
Lið sem er að leika langt yfir væntingum er lið eyjaskeggjanna frá Catania. Liðinu er stýrt af markakónginum Vincenzo Montella, en þetta er frumraun hans sem þjálfari í Serie-A ef frá er talið stutt tímabil hjá Roma í fyrra sem tímabundin lausn. Honum er hrósað hástert af sérfræðingum á Ítalíu og leikmenn Catania hafa lýst yfir mikilli ánægju með hann. Catania hefur í mörg ár verið byggt upp að mestu leyti af Argentínumönnum en fyrsta verk Montella síðasta sumar var að fá til sín reynsluboltann Nicola Legrottaglie og hefur hann stjórnað vörninni af mikilli eljusemi.
Francesco Lodi og Sergio Almiron eru þekkt nöfn á Ítalíu en eftir nokkur slök tímabil með félögum á borð við Bari og Udinese hafa þeir báðir spilað stórt hlutverk í velgengni Catania sem eins og svo mörg lið á Ítalíu þetta árið spila með þriggja manna varnarlínu. Salan á Maxi Lopez til Milan hefur ekki haft þau neikvæðu áhrif sem búist var við en Alejandro Gomez og Gonzalo Bergessio hafa séð um markaskorunina í fjarveru Maxi Lopez.
Í botnbaráttunni er í ár að finna kunnugt nafn, en Fiorentina hefur á óskiljanlegan hátt dregist niður í hana. Sinisa Mihajlovic var rekinn eftir örfáa mánuði en Delio Rossi hefur ekki tekist að snúa gengi liðsins við. Einnig verður að kenna stjórn félagsins um gengi liðsins því félagið gerði þau óskiljanlegu skipti að selja Gilardino til Genoa og kaupa Amauri. Amauri hefur ekki náð sér á strik, og ef ekki væri fyrir Jovetic væri félagið sennilega enn verr statt.
Að Lecce, Novara og Cesena vermi botnsætin kemur fáum á óvart en sérstaklega nýliðarnir Novara hafa átt erfitt uppdráttar í deild þeirra bestu. Athyglisvert er að þeir leika heimaleiki sína á gervigrasi en þótt ótrúlegt megi virðast þá er mjög lítið kvartað yfir því í ítölskum fjölmiðlum.
Þriggja manna varnarlínan
Áhugaverðasta þróunin í Serie-A í ár verður að teljast vera endurkoma þriggja manna varnarlínunnar, en í ár gerðist það í fyrsta skiptið í mörg ár að minnihluti liða notast við hina hefðbundnu fjögurra manna varnarlínu. Lið eins og Napoli og Udinese riðu á vaðið fyrir tveimur árum síðan og þessi þróun virðist óafturkvæm. Annað mjög áhugavert sem gerist vonandi á næsta ári er að við fáum íslending í Serie-A á ný, en Hellas Verona, félag Emils Hallfreðssonar er eins og stendur í fjórða sæti (umspilssæti) í Serie-B.
Knattspyrnuáhugamenn vonast einnig til þess að Pescara komist upp en þjálfari þeirra er enginn annar en hinn umdeildi Zdenek Zeman. Zeman er frægur fyrir mikinn sóknarleik og sem dæmi hefur Pescara skorað 64 mörk í deildinni í ár, 13 mörkum meira en næsta lið auk þess sem félagið hefur fengið á sig 46 mörk, fleiri en tvö af félögunum sem eru í fallsæti. Yrði það mikill fengur fyrir áhugamenn um fallega knattspyrnu.
Twitter: @bjornmaro
Athugasemdir