Man Utd vill Ait-Nouri og hefur líka áhuga á Nkunku - Fulham og Leicester vilja fá Ferguson lánaðan - Dyche með fullan stuðning
banner
   mið 28. mars 2012 14:30
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Milli vonar og ótta - Styttist í sumarið
Pepsi-deildin fer af stað 6. maí
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Sér Atli um að skora mörkin fyrir Val?
Sér Atli um að skora mörkin fyrir Val?
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Íslandsmótið í fótbolta fer ekki fram í febrúar og mars. Undirbúningstímabilið er í fullum gangi og eins og venjan er í fótbolta hefur gengi liða Pepsi-deildarinnar verið ansi misjafnt.

Áherslur liðanna eru misjafnar, sum lið hafa ekki fengið alla útlendingana sína, sum hafa verið mjög óheppin með meiðsli á meðan önnur virðast bara vera tilbúin í átökin. Síðustu daga hef ég hlerað stuðningsmenn úr hverju liði í deildinni og skoðaði aðeins hvernig fólkinu í stúkunni lýst á komandi sumar.

Vesturbæingar vilja endursýningu
KR-ingar eru svo sannarlega til í að endurtaka síðasta sumar þar sem þeir tóku báðar stóru dollurnar. Félög á Norðurlöndunum eru að reyna að kroppa í þeirra leikmenn og ljóst að ef Skúli Jón eða Kjartan Henry fara munu þeir skilja eftir sig stór skörð.

„Það breytist ekkert að vera KR-ingur. Maður gerir alltaf kröfu á sigur í öllum keppnum hérna heima og ég tel mjög líklegt að við verjum Íslandsmeistaratitilinn. Nú er maður líka farinn að gera væntingar um að liðið veki enn meiri athygli í Evrópukeppni," segir KR-ingurinn.

Fyrst Guðjón Baldvinsson er farinn telur hann nauðsynlegt að halda Kjartani. Þá telur hann að þrátt fyrir tilkomu Fjalars Þorgeirssonar sé staða Hannesar í markinu ekki í hættu. Annars hefur hann ekki miklar áhyggjur meðan Rúnar Kristinsson stýrir þessu.

„Ég er sannfærður um að hann muni ná mjög langt á þjálfaraferlinum eins og hann gerði sem leikmaður. KR er liðið sem þarf að vinna, ég spái því að Óskar Örn komi hungraður inn eftir meiðslin og verði leikmaður ársins!" segir KR-ingurinn.

Leiðtogi óskast í Kaplakrika
Ærið verkefni býður Heimis Guðjónssonar. Fyrirliðinn Matti Vill er farinn til Noregs og hægara sagt en gert að finna mann í hans stað. Þá er að eiga sér stað ákveðin endurnýjun í Hafnarfirði og reynslumiklir og sigursælir leikmenn horfnir á braut.

FH-ingurinn sér fram á toppbaráttu en finnst vanta leiðtoga. „Mér finnst bæði vanta fyrirliðatýpu fyrir liðið í heild og svo leiðtoga í vörnina. Sama hvað fólk sagði um Tommy Nielsen í fyrra og þótti hann hægur þá var mikið öryggi yfir því að hafa hann þarna. Guðmann Þórisson á enn eftir að vinna mig á sitt band."

„Ég þykist vita það að FH sé að skoða miðjumann út fyrir landsteinana, margir misgóðir erlendir leikmenn hafa komið síðustu ár en nú er nauðsyn að fá einn öflugan. Annars hefur liðið ekki enn getað stillt upp sinni sterkustu miðju í vetur," segir FH-ingurinn sem vill hafa Björn Daníel frekar á miðju en í bakverði.

FH er með góða leikmenn í öllum stöðum, lítið er hægt að kvarta yfir mannskapnum og verður spennandi að sjá hvort Albert Brynjar Ingason finni taktinn í markaskorun.

Þarf öryggi í markið í Eyjum
Heimir Hallgrímsson hefur gert magnaða hluti í því að rífa ÍBV í fremstu röð á nýjan leik. Þegar Eyjaliðið fór niður hélt ég í hreinskilni að tími liðsins væri einfaldlega liðinn en hafði rangt fyrir mér. Áhugavert verður að sjá hvort liðið nái að taka enn eitt skrefið fram á við undir stjórn Magnúsar Gylfasonar.

„Ég hef smá áhyggjur í hreinskilni sagt. Eins og staðan er í dag þá held ég að við munum sigla lygnan sjó um miðja deild," segir stuðningsmaður ÍBV. „Úrslitin á undirbúningstímabilinu hafa ekki verið nægilega góð... það vill reyndar oft vera þannig hjá ÍBV."

ÍBV hefur misst einn besta leikmann Pepsi-deildarinnar í fyrra, Finn Ólafsson, og þarf Gunnar Már Guðmundsson að láta meira að sér kveða en síðustu ár til að fylla skarð hans.

„Abel verður ekkert stöðugur markmaður, hann er mjög tæpur og það þarf að finna öruggan mann í þessa stöðu. Vörnin verður mjög öflug ef Sverrir Garðars helst heill og vonandi mun þessi nýi danski sóknarmaður, Olsen, ná að skora eitthvað. Mér hefur þó þótt sóknarleikurinn oft mjög tilviljanakenndur í vetur."

Án Tryggva Guðmundssonar gæti sköpunarkrafturinn fram á við orðið hausverkur Eyjamanna.

Meiri pressa í Garðabæ
Stjarnan var eitt skemmtilegasta liðið í fyrra og frammistaðan með þeim hætti að fólk var byrjað að spá þeim í titilbaráttuna 2012 meðan síðasta tímabil var í gangi. Pressan í Garðabænum er meiri en í fyrra. Garðar Jóhannsson, einn allra öflugasti sóknarmaður deildarinnar, lét það skýrt í ljós að miðað við stöðu mála væri rétt að stefna á toppinn.

„Það hefur ekki verið sami taktur á liðinu í vetur og var síðasta sumar. Það kvikna þó engar áhyggjur strax, það er ekki kominn apríl og liðið á ekki að vera á neinu flugi. Ungir leikmenn hafa verið að fá mínútur og Garðar hefur misst af mörgum leikjum," segir Stjörnumaðurinn en margir spennandi leikmenn koma upp hjá Stjörnunni á næstu árum.

Tveir Danir hafa bæst í hóp liðsins, Alexander Scholz sem getur spilað í vörn eða á miðju og sóknarmaðurinn Kennie Chopart. Ef þeir verða eins góðir og vonir standa til gæti Stjarnan blandað sér í baráttuna á toppnum. Scholz hefur spilað í Lengjubikarnum en ekki sýnt stjörnutilþrif enn. Hann lék þó fyrir yngri landslið Dana og er að koma sér í leikform eftir að hafa verið í fríi frá boltanum.

„Mér finnst nokkrir lykilmenn hafa verið langt frá sínu besta í vetur og stundum fundið fyrir áhugaleysi. Það hlýtur að koma með hækkandi sól. Ég vona að Halldór Orri verði áfram eitt tímabil í viðbót þó ég skilji vel að hann vilji reyna fyrir sér úti. Ég er enn vongóður um að það sé spennandi sumar framundan."

Valsmenn leita í 1. deildina
Á Hlíðarenda hafa orðið miklar mannabreytingar eins og oft áður. Færeyingarnir eru farnir, Haraldur markvörður fór í atvinnumennsku, Sigurbjörn Hreiðarsson fór í nýtt verkefni í Hafnarfirði og Arnar Sveinn ákvað að taka sér frí. Það hefur því verið óflýjanlegt að bæta við mönnum. Valsmenn hafa farið þá leið að fá til sín leikmenn sem hafa sannað sig í 1. deild. Það hefur verið stígandi í leik liðsins í vetur.

„Vörnin og miðjan er eitthvað sem ég hef engar áhyggjur af," segir Valsarinn. „Í fyrra virtist oft mjög erfitt fyrir liðið að skora mörk og vantaði stöðugan skorara. Ég hef lítið séð Atla Heimisson og hreinlega veit ekki hvort hann nái að leysa þetta vandamál."

Atli var markakóngur og besti leikmaður 1. deildar þegar ÍBV fór upp úr 1. deildinni fyrir nokkrum árum en hefur síðan leikið í neðri deildum Noregs síðustu ár. Hann er því óskrifað blað fyrir Pepsi-deildina.

Enn er ekki ljóst hver verður aðalmarkvörður Vals í sumar. Sindri Snær Jensson og Ásgeir Þór Magnússon berjast um stöðuna. Sindri var varamarkvörður Vals í fyrra og hefur leikið 20 leiki með Þrótti og Val í efstu deild. Ásgeir er tvítugur unglingalandsliðsmaður sem var valinn leikmaður ársins í 2. deild í fyrra þegar hann var lánaður til Hattar sem fór upp.

„Baráttan milli þeirra tveggja er mjög jöfn og skil ég vel að Kristján hafi ekki tekið ákvörðun enn. Ef ég ætti samt að veðja þá held ég að Ásgeir sé hænuskrefi framar."

Mikil ábyrgð á ungar herðar í Kópavoginum
Breiðablik er eitt stærsta spurningamerkið fyrir mót. Uppeldisstarfið í Kópavoginum hefur skilað sér og leikmenn liðsins eftirsóttir af erlendum liðum. Umræðan um hve mikið Blikar söknuðu Alfreðs Finnbogasonar í fyrra var eins og biluð plata.

Kristinn Steindórsson er nú horfinn á braut og einnig Guðmundur Kristjánsson og þarf ekki að fjölyrða um blóðtökuna sem fylgir því. Leikmennirnir sem hafa bæst í hópinn eru ungir og nokkuð óreyndir leikmenn úr neðri deildum.

„Ég sé mitt lið vera um miðja deild í sumar, líklegra samt fyrir neðan miðju frekar en ofan. Það vantar leiðtoga í liðið og í raun sterka leikmenn sem eru helst komnir vel yfir tvítugt. Ég ætla rétt að vona að liðið verði styrkt fyrir sumarið þó ég óttist að það verði ekki gert," segir Blikinn.

Hann neitar því ekki að inn í sér blundi smá ótti um að mögulega gæti fallbarátta verið niðurstaðan. Það verður allavega mikil ábyrgð sett á ungar herðar í Kópavoginum í sumar. Breiðablik hefur verið duglegt við að framleiða stjörnur og fróðlegt verður að sjá hver skærasta stjarnan Blika verði í sumar.

Púsluspil hjá Fylkismönnum
Miklar breytingar hafa orðið á Fylkisliðinu frá því í fyrra. Nýtt þjálfarateymi og mikil endurnýjun á hópnum. Ásmundur Arnarsson er tekinn við liðinu og er að glíma við mikið og stórt púsluspil sem hann hefur enn ekki fundið lausnina á.

Ekki hefur hjálpað að lykilmenn eins og varnarmaðurinn Þórir Hannesson, miðjumaðurinn Finnur Ólafsson og sóknarmaðurinn Björgólfur Takefusa hafa lítið sem ekkert getað tekið þátt í undirbúningstímabilinu.

„Þetta hefur verið sérstakur vetur og ég held að ekkert lið hafi verið óheppnara með meiðsli en við. Þar af leiðandi hefur Ásmundur ekki getað fundið réttu blönduna. Ég þakka fyrir að það sé ekki styttra í mót, tíminn líður samt hratt. Ási er fær þjálfari og menn verða komnir í réttan gír í fyrsta leik," segir Fylkismaðurinn.

Fylkir er í leit að erlendum liðsstyrk í vörnina hjá sér. „Það þarf hiklaust að bæta í vörnina. Að öðru leyti treysti ég þessu liði til að gera fína hluti. Þegar pappírinn er skoðaður er þetta alls ekkert slæmt lið. Nokkrir af bestu mönnum liðsins hafa verið lélegir í vetur og þurfa að koma sér í gírinn sem fyrst."

Líklega erfitt sumar í Keflavík
Það er verulega áhugavert sumar framundan í Keflavík. Þar hefur verið breytt algjörlega um stefnu, uppbygging farin af stað og heimamönnum sýnt traustið. Zoran Daníel Ljubicic hefur fengið stöðuhækkun úr öðrum flokknum og fær það verkefni að móta nýtt lið. Ljóst er að margir ungir leikmenn munu stíga sín fyrstu skref í sumar.

Það verður samt alls ekki bara krakkabolti hjá Keflavík í sumar því reynsluboltar eins og Ómar Jóhannsson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Jóhann B. Guðmundsson og Guðmundur Steinarsson sjá um að draga vagninn. Mikilvægt er að þessir leikmenn haldist heilir því breiddin er alls ekki mikil.

„Allir hér í Keflavík gera sér grein fyrir því að þetta er stefna sem þurfti að taka. Þetta verður líklega erfitt sumar en ef við höldum velli þá tel ég að framtíðin sé björt. Ég held að fleiri lið muni taka upp þessa stefnu á næstu árum því það getur ekki gengið til frambúðar að kaupa bara og kaupa endalaust," segir Keflvíkingurinn sem viðurkennir fúslega að fallbarátta sé líkleg.

Keflvíkingar vita að það borgar sig að taka eitt skref í einu og gera sér grein fyrir því að ef liðið verði ekki styrkt gæti falldraugurinn sveimað yfir. Þeir hafa fengið slóvenskan varnarmann og eru í viðræðum við miðjumann frá sama landi.

Framarar verið óstöðvandi
Framarar hafa verið lið undirbúningstímabilsins til þessa. Unnu Reykjavíkurmeistaratitilinn og hafa unnið alla sex leiki sína í Lengjubikarnum til þessa. Þessi breski liðsauki sem rak á fjörur Safamýrar á heima í sama flokki og þegar Tommy Nielsen og Allan Borgvardt komu til FH.

Þeir þjálfarar deildarinnar sem ég hef rætt við telja allir að Fram gæti vel blandað sér í baráttu um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn. Miðað við frammistöðuna í vetur er eðlilegt að gera þær kröfur að liðið snúi blaðinu við og berjist á réttum enda töflunnar í sumar.

„Það hefur verið skemmtilegra að mæta á þessa vetrarleiki en áður og vissulega tekur maður eftir mikilli bjartsýni meðal Framara. Ég held mér sjálfum á jörðinni og veit að það getur allt gerst í sumar. Að mínu mati er byrjunin algjörlega lykillinn, ef liðið byrjar sumarið vel þá eru allir vegir færir," segir Framarinn.

Steven Lennon hefur oft á tíðum virkað sem „svindlkall" í leikjunum í vetur en miðjumaðurinn Sam Hewson er alls ekki síðri, leikmaður sem býr yfir góðum spyrnum og góðum leikskilningi. Tveir leikmenn sem eru líklegir til að vera meðal bestu leikmanna deildarinnar. Þá hefur Þorvaldur Örlygsson náð að auka breiddina í hópnum svo góðir leikmenn hafa verið að byrja á bekknum.

„Okkar lið var nánast fullmótað í upphafi tímabilsins og það verður að taka með í reikninginn. Meiðsli hafa ekki mikið verið að flækjast fyrir okkur og við nánast alltaf getað stillt upp mjög sterku liði," segir Framarinn.

Vantar leikstjórnanda í Grindavík
Guðjón Þórðarson er aftur mættur í efstu deild en hann heldur nú um stjórnartaumana hjá Grindavík. Það er sjaldan lognmolla í Grindavík og ólíklegt að það breytist með tilkomu Guðjóns en ljóst er að það gefur deildinni mikið krydd að fá hann aftur.

Fastamenn hafa horfið á braut og úrslitin verið sveiflukennd í vetur. Sóknarlínan verður athyglisverð með þá Pape Mamadou Faye og Tomi Ameobi en miðjan er klárlega hausverkur. Liðinu vantar sköpunarmátt á miðsvæðið.

„Spilamennskan hefur ollið mér smá vonbrigðum í vetur. Mér finnst of mikið verið sparkað út í loftið og aðeins of mikil áhersla á vörnina. Skýringin er kannski sú að það það vantar leikstjórnanda á miðjuna. Ég geri fastlega ráð fyrir því að Grindavíkurliðið verði í góðu formi í sumar og vona að það muni forða okkur frá fallbaráttu," segir stuðningsmaður Grindavíkur.

„Ég get trúað því að pakkinn verði mjög þéttur í neðri helmingnum og að lið falli á fleiri stigum en áður. Óskar Pétursson verður að eiga svipað sumar í markinu og í fyrra til að við verðum ekki í veseni."

Stjörnum prýtt lið á Skaganum
Undanfarin ár hefur Pepsi-deildin reynst of stór biti fyrir nýliða deildarinnar og margir búnir að bóka þá niður fyrir sumarið. Það á svo sannarlega ekki við um þetta ár. ÍA hefur leikið fimm leiki í Lengjubikarnum og unnið þá alla. Liðið hefur öflugt byrjunarlið en hópurinn er ekki stór svo ljóst er að ekki má mikið út af bregða.

Hjörtur Hjartarson og Reynir Leósson áttu stóran þátt í að koma ÍA upp en ákváðu að taka samt ekki skrefið með liðinu. Í þeirra stað eru komnir heim úr atvinnumennsku þeir Garðar Gunnlaugsson í sóknina og Ármann Smári Björnsson í hjarta varnarinnar.

Ekki er víst hvort Jóhannes Karl komi fyrir mót en líklegra er að hann mæti um mitt sumar. Hann hefur verið að byrja síðustu leiki Huddersfield í ensku 1. deildinni sem er mun öflugri deild en flestir gera sér grein fyrir. Að hafa leikmann í þessum gæðaflokki í Pepsi-deildinni eru forréttindi.

„Maður er enn svo glaður yfir því að liðið sé loksins komið aftur upp að maður er ekki farinn að leggja mat á væntingar fyrir sumarið. Maður mun njóta tímabilsins. Það þarf mikið að ganga á svo við lendum í basli, ef allt gengur upp þá getum við vel snúið aftur af krafti og barist á toppnum," segir Skagamaðurinn.

Spennandi verður að sjá Englendingana litríku Gary Martin og Mark Doninger sem hafa vakið mikla athygli innan og utan vallar. Doninger hefur verið besti leikmaður ÍA í vetur og lofar verulega góðu fyrir mótið.

Útlendingahersveit á Selfossi
Það verður alþjóðleg stemning á Selfossi í sumar og ekki að ástæðulausu sem Hörður Magnússon auglýsti eftir tungumálamanni í viðtölin fyrir Pepsi-mörkin í sumar. Umræða um fjölda útlendinga í liðinu virðist mjög viðkvæm meðal einhverra Selfyssinga en er engu að síður staðreynd.

Flestir þessara erlendu leikmanna eru óskrifað blað en maður sem vert er að gefa gaum er senegalski miðjumaðurinn Babacar Sarr sem var frábær í 1. deildinni í fyrra og var valinn í lið ársins. Það eru þó líka spennandi íslenskir leikmenn í liðinu. Stefán Ragnar Guðlaugsson, Jón Daði Böðvarsson og Viðar Örn Kjartansson eru strákar sem hafa öðlast mikla reynslu undanfarin ár og láta vonandi til sín taka í sumar.

„Það eru vissulega skiptar skoðanir á Selfossi um að hafa svona marga útlendinga og einhverjir með áhyggjur af því að það komi niður á stemningunni fyrir liðinu. Ég tel að liðið sé þó mun betur í stakk búið fyrir Pepsi-deildina núna en síðast. Ekki síst vegna reynslu Loga Ólafssonar, Gummi Ben var of reynslulítill fyrir þetta verkefni 2010," segir Selfyssingurinn.

„Þegar liðið fór upp síðast þá var það ekki sterkt. Menn ætlar ekki að gera sömu mistökin aftur."

Nær ómögulegt er að leggja mat á Selfossliðið í dag enda hefur liðið verið langt frá því að vera fullmótað í undirbúningsleikjunum. Þá hefur leikmannahópurinn verið í erfiðu prógrammi sem breytir því þó ekki að úrslit liðsins í vetur hafa ekki verið góð.
Athugasemdir
banner
banner
banner