Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   þri 24. apríl 2012 18:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Blackpool ævintýrið
Ferðasaga Stuðningsmannaklúbbs Blackpool FC á Íslandi
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Ágúst Stefánsson og Baldur Halldórsson.  Myndin er úr leikskrá Blackpool.
Ágúst Stefánsson og Baldur Halldórsson. Myndin er úr leikskrá Blackpool.
Mynd: Úr einkasafni
Með boltann sem var spilað með gegn Hull.
Með boltann sem var spilað með gegn Hull.
Mynd: Úr einkasafni
Ágúst og Rodgers með treyjuna.
Ágúst og Rodgers með treyjuna.
Mynd: Úr einkasafni
Ágúst og Tom Ince.
Ágúst og Tom Ince.
Mynd: Úr einkasafni
Árið 2005 ákvað ég, Ágúst Stefánsson, ásamt félaga mínum Oddi Aðalgeirssyni að það væri kominn tími til að fylgjast með einhverju skemmtilegu liði í neðri deildunum á Englandi. Liðið sem við féllum fyrir var Blackpool FC. Gengi félagsins hefur verið ótrúlegt síðan þá, en liðið var í Football League One (2. deild upp á íslenskuna) og hefur síðan farið upp í fyrstu deildina og eins og margir muna eftir upp í Úrvalsdeildina þar sem spilamennska liðsins heillaði ansi marga áður en liðið féll óverðskuldað í síðustu umferðinni í fyrra.

Gleðistundirnar þegar liðið vann umspilið og kom sér upp í úrvalsdeildina, 4-0 stórsigur í fyrsta leik í Úrvalsdeildinni og að vera inn á fullum Players þegar Blackpool vann 1-2 sigur á Liverpool á Anfield hafa svo sannarlega tryggt það að í dag er Blackpool sko mitt lið. Ég ákvað því í sumar að það væri komið að því að ég og mínir vinir myndum fara út og fara á leik. Einnig að búa til Stuðningsmannaklúbb utan um þetta og reyna að finna fleiri Blackpool menn á landinu.

Ég byrjaði á því að senda tölvupóst á nokkra aðila hjá Blackpool þar sem ég kynnti til sögunnar Stuðningsmannaklúbbinn okkar og sagði frá því að ég og Baldur Halldórsson félagi minn ætluðum að koma á leik.

Til að byrja með var ekki mikið um svör, þá helst að mér var bent á hvar ég gæti keypt miða. En svo fór maður allt í einu að fá veglegri svör og frá stærri aðilum í klúbbnum. Það var svolítið eins og klúbburinn hafi haldið að ég væri að grínast en hafi svo áttað sig á því að mér væri full alvara og ákveðið að gera gott úr þessu. Á tímabili var ég meira að segja kominn í hörkuviðræður við formann félagsins, og í gegnum það fór undirbúningurinn á alvöru flug.

Við vorum búnir að koma okkur saman við John Rodgers sem er nokkurskonar almenningstengill hjá félaginu og sér um allar helstu ráðstefnur á vegum Blackpool um að við myndum mæta á Bloomfield Road klukkan 14:00. Hinsvegar fór lestin okkar ansi seint af stað þannig að við þurftum að mæta beint á völlinn með allan okkar farangur svo við yrðum ekki of seinir. Það var svo tekið ótrúlega vel á móti okkur og Rodgers fannst nú minnsta mál að leyfa okkur að geyma farangurinn okkar á skrifstofunni sinni.

Svo byrjaði þessi ógleymanlegi túr um völlinn og sögu félagsins. Rodgers kynnti fyrir okkur öll helstu afrek félagsins en þar stendur að sjálfsögðu uppúr sigur í FA Cup 1953 þar sem Stan Mortensen skoraði einu þrennuna sem skoruð hefur verið í úrslitaleik í FA Cup á Wembley! Svo var farið með okkur í gegnum allt á vellinum, fundarherbergin, bikarasafnið, einkasvíturnar, VIP salinn, blaðamannafundarherbergið, öryggisherbergið og fleira. Hinsvegar stóð það klárlega uppúr að kíkja í klefann og dómaraherbergið en þar fengum við að handleika boltann sem spilað var svo með í leiknum um kvöldið.
Svo þegar þessum mikla túr lauk þá sagði Rodgers okkur að við ættum svo endilega að kíkja á sig eftir leik, þar myndi hann gefa okkur leikskránna og koma okkur inn í VIP herbergið. Svo dró kappinn fram Blackpool treyju sem var árituð af öllum leikmönnum liðsins. Vorum þar myndaðir þegar okkur var afhend treyjan og við eðlilega í skýjunum með þetta. Svo bauðst öðlingurinn til að panta fyrir okkur leigubíl upp á hótel enda vorum við ennþá með allan farangurinn okkar á skrifstofunni hans!

Svo mættum við vel tímanlega aftur á völlinn fyrir leik og keyptum okkur allt það helsta eins og treyjur, trefla og fleira bráðnauðsynlegt fyrir stuðningsmenn. Það var svo alveg mögnuð upplifun að horfa á leikinn, andrúmsloftið á Bloomfield Road er einkar vinalegt og greinilegt að þangað er fólk einungis mætt til að hvetja sitt lið og hafa gaman. Það voru engin vandamál og engin alvarleg ölvun þó að fólk hafi að sjálfsögðu sötrað sinn bjór yfir leiknum.

Leikurinn sjálfur var mjög skemmtilegur og hápunkturinn þegar Tom Ince skoraði stórglæsilegt mark okkar manna í fyrri hálfleiknum, en Tom Ince er eins og margir vita sonur goðsagnarinnar Paul Ince. Blackpool mikið mun betra liðið í leiknum en náði ekki öðru marki og var refsað grimmilega á lokamínútunum þegar Hull náði að jafna. Við komum okkur svo til John Rodgers þar sem við spjölluðum aðeins um leikinn og hittum nokkra leikmenn. Sáum svo glitta í meistara Ian Holloway þjálfara liðsins en hann var augljóslega bálreiður að hafa misst leikinn niður í jafntefli. Þegar ég spurði hvort það væri einhver möguleiki á að við gætum hitt á hann var okkur sagt að hann væri að fara á skrifstofuna sína þar sem hann yrði þangað til allir yrðu farnir þannig að því miður þarf það að bíða aðeins að hitta á þann mikla meistara.

En við fengum að hitta Tom Ince sem var maður leiksins og fékk verðlaun fyrir það í VIP herberginu. Smelltum myndum af okkur með kappanum. Svo þegar þessu lauk þökkuðum við að sjálfsögðu vel fyrir okkur enda var þetta allt alveg frábært, og ég lofaði því að við myndum mæta aftur og þá með fleiri með okkur.

Mánuði seinna fékk ég svo símtal frá blaðamanni í Blackpool sem sagðist skrifa fyrir leikskrárnar hjá félaginu og hann vildi endilega taka viðtal við mig til að fræðast um Stuðningsmannaklúbbinn, hvernig ferðin hefði tekist og mína sýn á knattspyrnu. Nokkrum dögum seinna kom svo leikskráin í póstinum til mín og það var alveg frábært að sjá heila opnu tileinkaða viðtalinu með myndum af okkur félögunum!

Það kostar ekkert að skrá sig í Stuðningsmannaklúbbinn og það er algjörlega ókeypis að vera meðlimur. Eini tilgangur klúbbsins er að fólk sem hefur yndi af spilun Blackpool FC haldi hópinn og geti spjallað saman um liðið. Svo er ætlun hópsins að fara í hópferð einu sinni á ári til Blackpool enda komin góð tengsl við félagið. Endilega kíkið á facebook síðu klúbbsins:

Nú er bara að vona að Blackpool vinni umspilið og komi sér aftur í deild þeirra bestu!
Þakka lesninguna
Ágúst Stefánsson, formaður Stuðningsmannaklúbbs Blackpool FC á Íslandi
Athugasemdir
banner
banner
banner