Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 28. júní 2018 08:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Best í 7. umferð: Fínt að hafa náð að skora eitthvað
Elín Metta Jensen (Valur)
Elín Metta er að eiga frábært sumar með Val.
Elín Metta er að eiga frábært sumar með Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
„Við stefnum á að vera í toppbaráttunni," segir Elín Metta Jensen, leikmaður Vals og besti leikmaður 7. umferðar kvenna að mati Fótbolta.net.

Elín Metta átti flottan leik í 4-2 sigri Vals á FH síðastliðinn sunnudag. Hún skoraði tvö mörk og lagði upp eitt. Hún hefði sjálf viljað gera meira í þeim leik.

Elín er orðin markahæsti leikmaður Pepsi-deildar kvenna með níu mörk í fyrstu sjö leikjum tímabilsins.

„Það er fínt að hafa náð að skora eitthvað, það gefur manni sjálfstraust og vonandi getur það hjálpað liðinu í sumar."

„Mér fannst FH-ingar vera frekar skipulagðar framan af, og við þurftum að sýna þolinmæði til að spila okkur í gegnum þær. Leikurinn var frekar jafn í fyrri hálfleik en mér fannst við ná yfirhöndinni í þeim seinni," segir Elín um leikinn gegn FH.

„Ég er nokkuð sátt," segir Elín um frammistöðu sína í leiknum. „En ég neita því ekki að ég hefði viljað taka þátt í fleiri mörkum, hvort sem það hefði verið stoðsending eða mark. Ég skaut til dæmis einu sinni í slánna, sá bolti hefði alveg mátt enda inni."

Valur er í öðru sæti deildarinnar með 18 stig. Liðið tapaði fyrir Stjörnunni í 2. umferð en hefur unnið alla leikina síðan þá. Hvað gerðist eftir þennan Stjörnuleik?

„Við ákváðum að halda haus, meðvitaðar um það að það er nóg eftir af leikjum í þessu móti. Við fórum yfir einhver atriði sem við hefðum getað gert betur, og mér finnst við hafa bætt okkur eftir það."

Næsti leikur er einmitt gegn toppliði Þórs/KA. „Ég er spennt fyrir þeim leik, það er mjög gaman að mæta toppliðinu og ég hugsa að þetta verði erfiður en skemmtilegur leikur að spila."

„Líður ágætlega á Íslandi núna"
Elín er 23 ára en hún hefur leikið í efstu deildinni á Íslandi frá því hún var aðeins 15 ára gömul. Hún lék í háskólaboltanum í Bandaríkjunum með Florida State en hefur annars ekkert leikið erlendis.

Elín hefur raðað inn mörkum með Val síðustu ár. Eftir síðasta tímabil skoðaði hún aðra möguleika en ákvað á endanum að skrifa undir þriggja ára samning við Val.

Er atvinnumennska eitthvað sem er á döfinni?

„Mér líður ágætlega á Íslandi núna, en ég er svo sem ekkert búin að útiloka það að skoða atvinnumennsku í framtíðinni," segir þessi öfluga landsliðskona.

Elín er ávallt í íslenska landsliðshópnum. Framundan í september eru tveir mikilvægir gegn Þýskalandi og Tékklandi sem munu skera úr um það hvort íslenska kvennalandsliðið muni taka þátt á Heimsmeistaramóti í fyrsta sinn.

Elín spilaði frábærlega þegar Ísland og Þýskaland mættust ytra í mögnuðum 3-2 sigri. Elín skoraði eitt og lagði upp tvö. Báðir leikirnir í september eru á Laugardalsvelli og því tilvalið að mæta á völlinn. Fyllum Laugardalsvöllinn!

„Leikirnir í haust á móti Þýskalandi og Tékklandi verða gríðarlega krefjandi, enda fáum við tvö hörkulið í heimsókn," segir Elín.

„Ég er fullviss um það að liðið okkar verður klárt í haust, og ég hef fulla trú á okkur. Þarna getum við tryggt okkur sæti á HM næsta sumar, og ég efast ekki um að fólk hafi áhuga á að koma og styðja við bakið á liðinu."

Ísland mætir Þýskalandi 1. september og Tékklandi nokkrum dögum síðar.

Fyrri leikmenn umferðar
Leikmaður 6. umferðar - Shameeka Fishley (ÍBV)
Leikmaður 5. umferðar - Björk Björnsdóttir (HK/Víkingur)
Leikmaður 4. umferðar – Rio Hardy (Grindavík)
Leikmaður 3. umferðar - Jasmín Erla Ingadóttir (FH)
Leikmaður 2. umferðar - Selma Sól Magnúsdóttir (Breiðablik)
Leikmaður 1. umferðar - Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Breiðablik)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner