Van Dijk vill framlengja - PSG og Juve vilja Salah - Man Utd vill Rabiot
   þri 16. október 2018 11:42
Elvar Geir Magnússon
Guðmann: Bjartsýnn á að meiðslavandræðin séu að baki
Guðmann á góðri stundu.
Guðmann á góðri stundu.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Guðmann kveður KA með söknuði.
Guðmann kveður KA með söknuði.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Miðvörðurinn Guðmann Þórisson er genginn í raðir FH á nýjan leik eftir þriggja ára veru hjá KA. Í samtali við Fótbolta.net segist Guðmann hæstánægður með að endurnýja kynni sín af Kaplakrika.

„Tilfinningin er drullugóð. Þetta er í þriðja sinn sem ég fer í FH og ég sæki þangað. Það hefur alltaf verið tekið hrikalega vel á móti mér og eins og ég sagði við strákana þá er ég rosalega spenntur," segir Guðmann.

FH missti af Evrópusæti í sumar, endaði í fimmta sæti, og Guðmann er spenntur fyrir því að taka þátt í verkefninu að hífa liðið aftur upp.

„Ekki bara liðið, ég þarf sjálfur að rífa mig í gang. Síðustu tvö ár hafa verið hundleiðinleg vegna meiðsla. En ég tel mig eiga nóg inni. Maður þarf að leggja mikið á sig og það er nákvæmlega það sem ég ætla að gera."

Guðmann segist bjartsýnn á að ná að halda sér meiðslalausum næsta tímabil.

„Í fyrra var ég að glíma við erfið meiðsli í nára en ég hef ekkert fundið fyrir því eftir það. Svo í sumar var það þetta helv... afsakið orðbragðið... rifbeinsbrot. Þegar maður var loksins kominn í gang missti maður af helmingi tímabilsins. Eins og er þá er líkaminn alveg heill og ég er mjög bjartsýnn á að halda mér heilum. Maður þarf bara að vinna í sér. FH er með frábært teymi með Gauja sem styrktarþjálfara og Robbi er einn af tveimur bestu sjúkraþjálfurum landsins. Þeir ættu að geta hjálpað mér, haldið manni saman," segir Guðmann.

Það voru fleiri félög sem sóttust eftir kröftum Guðmanns.

„Það var eitthvað í gangi en þegar FH heyrði í mér þá var ég strax mjög spenntur. Viðræður gengu fljótt fyrir sig. En jú jú, það eru alltaf einhverjir að heyra í manni og eitthvað var komið í gang. Það var þó alls ekkert sem heillaði mig meira en FH. Ég er bara hrikalega sáttur."

Sögusagnir hafa verið í gangi um að Guðmann hafi áhuga á að reyna fyrir sér í þjálfun yngri flokka meðfram ferlinum.

„Maður hefur lesið ýmislegt, að ég ætli að vera þjálfari og arkitekt og ýmislegt!" segir Guðmann léttur. „En jú jú. Það kemur alveg til greina hjá FH að þjálfa eitthvað. Ég hef alveg áhuga á því og væri til í að prófa hvernig það leggst í mann og sjá svo til. Ég held að ég sé alveg fínn í að láta einhverja heyra það og stjórna einhverjum. Það gæti orðið ágætt."

Guðmann kveður KA með söknuði.

„Ég á frábærar minningar frá KA og elskaði tímann þar. Þetta eru þvílíkir meistarar sem eru í kringum félagið," segir Guðmann að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner