Van Dijk vill framlengja - PSG og Juve vilja Salah - Man Utd vill Rabiot
banner
   mán 28. janúar 2019 13:00
Magnús Már Einarsson
Tryggvi Hrafn: Held að þetta sé best fyrir mig núna
Tryggvi í leik með ÍA árið 2017.
Tryggvi í leik með ÍA árið 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Það voru nokkur lið inni í myndinni en mér leist best á þetta. Ég held að þetta sé best fyrir mig núna. Ég þarf spiltíma og er spenntur fyrir því sem er í gangi," sagði Tryggvi Hrafn Haraldsson við Fótbolta.net í dag en hann er genginn aftur til liðs við uppeldisfélag sitt ÍA eftir eitt og hálft ár hjá Halmstad í Svíþjóð.

„Það er búið að liggja í loftinu að ég myndi fara héðan. Við komumst að þeirri niðurstöðu fyrir áramót og ætluðum að skoða hvaða möguleikar væru í boði. Það endaði á þessu."

„Ég er mjög spenntur. Ég þekki Sigga Jóns (aðstoðarþjálfara) mjög vel og ég hef heyrt góða hluti um það sem Jói Kalli er að gera þarna. Ég hef fulla trú á þessu."

Ætlar ekki að staldra lengi heima
Halmstad keypti Tryggva frá ÍA um mitt sumar 2017 en hann var þá búinn að skora fimm mörk í þrettán leikjum í Pepsi-deildinni. Tryggvi byrjaði af krafti með Halmstad í sænsku úrvalsdeildinni en liðið féll um haustið. Tryggvi var síðan mikið á bekknum í sænsku B-deildinni síðastliðið sumar.

„Ég kom um mitt sumar 2017 og það gekk mjög vel hjá mér persónulega þegar við vorum í úrvalsdeildinni. Ég spilaði flesta leiki og gekk mjög vel. Síðan fór ég að fjarlægjast byrjunarliðið smá saman síðasta vetur og þetta var erfitt seinni hlutann á síðasta tímabili," sagði Tryggvi sem segist hafa lært mikið í atvinnumennskunni.

„Það gaf mér mikið að spila fyrir framan fullt af áhorfendum í hverri viku þegar við vorum í úrvalsdeildinni. Það var ógeðslega gaman og stefnan er að ná því aftur. Markmiðið er að staldra ekki lengi við heima heldur fara síðan aftur út."

Bjartsýnn fyrir sumarið á Skaganum
ÍA féll úr Pepsi-deildinni 2017 en vann Inkasso-deildina síðastliðið sumar. Tryggvi þekkir vel til leikmannahópsins og er spenntur fyrir sumrinu.

„Það eru ekki margir farnir. Garðar (Gunnlaugs) er farinn og það er leiðinlegt að fá ekki að spila með honum aftur. Hópurinn er stór og nokkuð sterkur. Ég held að við getum gert góða hluti. Ég er bjartsýnn fyrir sumarið," sagði Tryggvi.
Athugasemdir
banner
banner
banner