Nkunku til Barcelona? - Man Utd hefur áhuga á Osimhen - Díaz ánægður á Anfield
   þri 20. apríl 2010 07:18
Magnús Már Einarsson
Heimild: Eyjafréttir 
Denis Sytnik í ÍBV (Staðfest) - Enskur miðvörður á reynslu
Ólíklegt að Leitch-Smith og Clements komi aftur
Denis Sytnik.
Denis Sytnik.
Mynd: ÍBV
ÍBV hefur gert tveggja ára samning við úkraínska framherjann Denis Sytnik en þetta kemur fram á vef Eyjafrétta.

Denis, sem er fæddur árið 1986, er uppalinn hjá Dynamo Kiev í heimalandi sínu Úkraínu en síðasta árið hefur hann leikið með Gornyak-Sport.

Denis stóð sig vel á reynslu hjá ÍBV í síðasta mánuði en hann skoraði meðal annars fernu í 5-2 sigri á Hvöt í æfingaleik.

Eyjamenn hafa verið í leit að framherja í vetur og þeir skoðuðu meðal annars bæði Letta og Englending áður en þeir ákváðu að semja við Sytnik.

Sytnik er væntanlegur til landsins síðar í vikunni ef flugsamgöngur í Evrópu lagast og möguleiki er á að hann spili með ÍBV í æfingaleik gegn HK í Eyjum um næstu helgi.

Annar leikmaður mun væntanlega nota leikinn til að heilla forráðamenn ÍBV því enski miðvörðurinn Dominic Cascieto er væntanlegur til Eyja til reynslu. Trausti Hjaltason, framkvæmdastjóri ÍBV segir að leikmaðurinn komi á eigin vegum.

,,Hann hefur spilað síðustu þrjú ár í bandaríska háskólaboltanum við góðan orðstýr og stefndi að því að fara til Englands en þegar það datt upp fyrir, tókum við hann til reynslu," sagði Trausti við Eyjafréttir.

Ólíklegt er að ensku leikmennirnir Ajay Leitch-Smith og Christopher Clements leiki aftur með ÍBV í sumar líkt og í fyrra en Sigursveinn Þórðarson formaður knattspyrnudeildar greindi frá þessi á aðalfundi félagsins.

,,Það er enn möguleiki en möguleikinn verður alltaf fjarlægari eftir því sem nálgast tímabilið. Eins og staðan er núna, verða þeir samningslausir hjá Crewe í vor en það þýðir að það verður dýrara fyrir okkur að fá þá." sagði Sigursveinn.
banner
banner
banner