„Þetta var bara mjög góður leikur hjá okkur. Ég man ekki eftir að þeir hafi náð að skapa sér einhver alvöru færi, við vorum mjög þéttir og náðum að skapa helling af færum þannig að 3-0 var bara mjög sanngjarnt," segir Bjarni Aðalsteinsson, leikmaður KA, í samtali við Fótbolta.net
Bjarni var besti leikmaður 8-liða úrslita Mjólkurbikarsins að mati Fótbolta.net en hann skoraði tvö mörk þegar KA vann 3-0 sigur gegn Fram í síðasta mánuði.
Bjarni var besti leikmaður 8-liða úrslita Mjólkurbikarsins að mati Fótbolta.net en hann skoraði tvö mörk þegar KA vann 3-0 sigur gegn Fram í síðasta mánuði.
„Já, ég held það bara," segir Bjarni aðspurður um það hvort þetta hafi verið besti leikur sinn í sumar. „Alltaf gaman að skora og svona en þetta var líka bara sennilega okkar besti leikur, hefðum hæglega geta skorað 3-4 mörk í viðbót."
KA hefur verið í vandræðum í Bestu deildinni og er í tíunda sæti, einu stigi frá fallsæti. En liðið er komið í undanúrslitin í bikarnum.
„Það vita nú allir sem að fylgjast eitthvað með þessu að við erum búnir að vera í brekku síðan mótið byrjaði í raun og þetta er búið að vera erfitt. Við vorum að spila fínt í þessum leikjum svo sem en bara ekki að fá nein stig. En núna í síðustu leikjum finnst mér við hafa spilað mun betur, miklu þéttari og verjast betur sem lið og þá koma stigin," segir Bjarni.
„Sumarið hjá mér hefur verið fínt bara, það voru meiðsli hjá liðinu í upphafi sumars og ég var að spila nokkrar stöður, til dæmis á kantinum og í vængbakverði sem eru kannski ekki mínar uppáhaldsstöður. En í síðustu leikjum er ég búinn að spila á miðjunni og líður mjög vel þar."
KA mætir Val í undanúrslitum bikarsins en Bjarni verður í banni þar út af uppsöfnuðum gulum spjöldum.
„Já, það er bara ekkert eðlilega pirrandi. Mér finnst þessar reglur ekki meika alveg sens, tvö ódýr spjöld og maður er kominn í bann og missir af undanúrslitum sem er ótrúlega svekkjandi. Það þyrfti eitthvað að sameina þessi spjöld í bikarnum og deildinni."
„Það leggst samt bara mjög vel í mig að mæta Val, geggjað að fá heimaleik og ég býst við því að það verði frábær stemning á vellinum. Valur eru náttúrulega með mjög sterkt lið en við getum unnið hvaða lið sem er þegar við spilum okkar besta leik."
Að lokum sagði Bjarni: „Framhaldið leggst bara mjög vel í mig. Við erum farnir að spila mun betur sem lið og ef við höldum þannig áfram munum við 100% ná í helling af stigum og þá getum við farið að klifra upp töfluna."
Athugasemdir