Fundað um Pochettino - Man City tryggir sér undrabarn - Arsenal ætlar að styrkja hópinn
   fim 02. janúar 2020 09:33
Fótbolti.net
Guðni Kjartansson hlýtur Fálkaorðuna
Knattspyrnumaður, þjálfari, kennari, fyrirmynd.
Guðni Kjartansson fékk Fálkaorðuna í gær.
Guðni Kjartansson fékk Fálkaorðuna í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Ragnheiður Jónsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðni Kjartansson var sæmdur Fálkaorðunni af Forseta Íslands í gær. Nafn Guðna Kjartanssonar hefur verið samofið íslensku íþróttastarfi í 55 ár eða frá því hann var einungis 18 ára gamall í leikmannahóp fyrsta Íslandsmeistaraliðs Keflavíkur í meistaraflokki árið 1964. Hann komst þá ekki í byrjunarliðið, sökum einstaks mannvals eldri manna sem hann lærði mikið af því að takast á við og fylgjast með. Guðni lék aldrei knattspyrnu fyrir annað félag en Keflavík og sá árangur að vinna æðstu verðlaun knattspyrnuliða hérlendis var endurtekinn með hann sem fyrirliða árin 1969, 1971 og 1973.

Bikarmeistaratitill bættist svo í safnið árið 1975. Á þeim tímapunkti var hann, einungis 28 ára gamall, orðinn þjálfari liðsins ásamt Jóni Jóhannssyni, þar sem meiðsli höfðu bundið endi á leikmannsferilinn. Guðni lék þrjátíu og einn A landsleik í röð fyrir Íslands hönd á árunum 1967-73, eða allt fram að áðurnefndum meiðslum, sem hann varð fyrir árið 1974. Í sjö þessara leikja gegndi hann stöðu fyrirliða.

Í sviðsljósinu upplifði Guðni allt það tilfinningalitróf sem knattspyrnan hefur upp á á bjóða. Af því sem stóð upp úr má nefna að vera hluti af ˶gullaldarliðinu” sem náði að brjóta hefðarmúra Reykjavíkur og Akraness en fram að árinu 1964 höfðu félög þaðan undantekningarlaust eignað sér Íslandsmeistarabikarinn. Þeirri miklu velgengni fylgdu fjölmargir leikir í Evrópukeppnum með Keflavík og ber þar að nefna viðureignir gegn heimsþekktum stórliðum milljónaþjóða á borð við Tottenham og Everton frá Englandi og Hamburger Sportverein frá Þýskalandi, svo fá ein séu nefnd. Þá stóð hann sem klettur í vörn Keflavíkurliðsins sem tapaði einungis með einu marki gegn engu í viðureign við stórlið Real Madrid á Laugardalsvellinum haustið 1972. Sigurmark stjarnanna spænsku, gegn hinum íslensku áhugamönnum, sem allir léku fyrir lið síns heimabæjar, kom á lokamínútu leiksins.

Á hinum endanum má nefna að Guðni var í liði Íslands, sem tapaði 14-2 gegn Dönum á einhverjum frægasta og jafnframt svartasta degi íslenskrar knattspyrnusögu. Guðni var útnefndur Íþróttamaður ársins á Íslandi árið 1973 í kosningu íþróttafréttamanna, fyrstur knattspyrnumanna. Allt ofantalið og fjölmargt fleira sem telja mætti upp varð til þess að Guðna safnaðist ómetanleg leikreynsla sem síðar átti eftir að nýtast honum vel í knattspyrnuþjálfun en einungis 27 ára var hann orðinn þjálfari meistaraflokks Keflavíkur. Varð það til þess að hann var orðinn reyndur þjálfari yngri en margur annar sem þá braut fetaði.

Guðni var í hvorki meira né minna en þrjátíu og fjögur ár innvinklaður í landsliðastarf KSÍ, frá 1979-2013, fyrst sem aðstoðarþjálfari Sovétmannsins Júrí Ilitchev hjá A landsliði karla en síðar átti hann eftir að aðstoða þá Tony Knapp, Siegfried Held og Atla Eðvaldsson á sama vettvangi. Einnig stjórnaði hann sjálfur A landsliðinu í alls 16 landsleikjum þegar á þurfti að halda, eftir að aðrir höfðu yfirgefið starfið af mismunandi ástæðum á mismunandi tímabilum. Er árangur hans í því starfi einn sá allra besti sem náðst hefur hjá nokkrum þjálfara í þeirri stöðu.

Guðni náði mjög athyglisverðum árangri sem þjálfari U21 árs landsliðs karla á árunum 1986-89. Má þar nefna að í fjórum viðureignum heima og að heiman gegn stórveldunum Hollandi og Þýskalandi í undankeppni Evrópumótsins sem haldið var árið 1990 var niðurstaðan þrjú jafntefli og einn sigur. Alls kom Guðni að um 400 verkefnum sem tengdust hinum ýmsu landsliðum á ferli sínum og segja fróðir menn að leitun sé að öðrum eins landsliðsþjálfaraferli í heiminum.

Frá 1991 til 2006 stjórnaði hann U18/U19 landsliði karla og náðist oft eftirtektarverður árangur, meðal annars sigur á alþjóðlegu 16 liða móti á Ítalíu, árið 1996 þar sem þátttökuþjóðir á borð við Ítaliu, Chile og fleiri urðu að lúta í lægra haldi. Þá náði liðið 6. sæti í Evrópukeppninni árið 1997. Á því langa tímabili sem Guðni starfaði fyrir karlalandsliðin má segja að allar helstu stjörnur síðari tíma hafi gengið í gegnum þá skólun sem uppsöfnuð reynsla og viska Guðna bauð upp á. Sem dæmi má nefna þá Ásgeir Sigurvinsson, Atla Eðvaldsson, Arnór Guðjohnsen, Pétur Pétursson, Eyjólf Sverrisson, Rúnar Kristinsson, Guðna Bergsson, Eið Smára Guðjohnsen, Gylfa Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson sem allir léku fyrir hönd þjóðarinnar undir stjórn Guðna á mismunandi stigum.

Eftir að Guðni hætti sem þjálfari hjá unglingalandsliði karla, árið 2006 og margir héldu að hans framlagi væri lokið kom nokkuð á óvart að hann og Sigurður Ragnar Eyjólfsson voru ráðnir sem þjálfarateymi A landsliðs kvenna. Á næstu sjö árum náðu þeir mögnuðum og algjörlega fordæmalausum árangri en liðið fór meðal annars tvisvar sinnum í lokakeppni Evrópumótsins. Slíkt afrek hafði þá ekkert íslenskt fullorðinslandslið leikið og því um sannkallaða frumherja að ræða, hvað árangur varðar. Á tíma hans með kvennalandsliðinu fengu að kynnast Guðna og kostum hans sem þjálfara og manneskju brautryðjendur sem ávallt munu verða goðsagnir í íslenskri kvennaknattspyrnu eins og Margrét Lára Viðarsdóttir, Katrín Jónsdóttir, Edda Garðarsdóttir og seinna Íþróttamaður ársins 2018, Sara Björk Gunnarsdóttir.

Þrátt fyrir að hafa starfað sem landsliðsþjálfari megnið af þjálfaraferli sínum fékkst Guðni einnig um tíma við þjálfun félagsliða í efstu deild karla, fyrst sem þjálfari Keflavíkurliðsins á áttunda og níunda áratugnum og síðar sem þjálfari KR sumarið 1991. Guðni hefur einstakt lag á að að lesa knattspyrnuleikinn og finna veikleika og styrkleika einstaklinga og liða inni á vellinum, auk þess að eiga auðvelt með að skilja kjarnann frá hisminu þegar leikur er skoðaður gagnrýnum augum.

Þá má síðast en ekki síst minnast á að Guðni hefur kennt á þjálfaranámskeiðum KSÍ í áratugi og gerir það enn. Hafa allir fremstu þjálfarar landsins notið þess að sitja undir fyrirlestrum hans og ráðleggingum. Þar njóta nemendur góðs af kennsluhæfileikum og reynslu Guðna í starfi sem og af fjölmörgum námskeiðum sem hann hefur sótt út fyrir landsteinana á vegum Evrópska knattspyrnusambandsins (UEFA) og Alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA).

Guðni starfaði samhliða þjálfuninni sem íþróttakennari í Keflavík og Njarðvík eftir að hafa útskrifast frá íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni árið 1968. Flestir kannast við hann sem íþróttakennara í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en þeirri stöðu gegndi hann frá árinu 1980 fram að eftirlaunaaldri, til vors 2016, með árs hléi er hann stundaði nám við Íþróttaháskólann í Köln í Þýskalandi veturinn 1990-91. Í störfum sínum sem íþróttakennari var hann einkar farsæll, virtur og vinsæll af samstarfsfólki og nemendum, ekki síður en í þjálfuninni.

Af þessari upptalningu sjá glöggir fljótt að saga Guðna er mögnuð og algjörlega einstök. Á þeim 36 árum sem hann kenndi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja fóru eflaust þúsundir ungmenna af Suðurnesjunum öllum í gegnum þessi mikilvægu og eftirminnilegu ár í nálægð við Guðna. Með störfum sínum stuðlaði hann þannig með óeigingjörnum hætti að heilbrigðu líferni og forvörnum, samfélagi sínu til heilla, auk þess að koma með jákvæðum hætti að þroskun ungmennanna á þeim árum sem það er hvað mikilvægast en jafnframt oft hvað erfiðast.

Guðni hefur, eins og áður segir, á einhverjum tímapunkti komið að þjálfun allra okkar helstu stjarna á sviði knattspyrnunnar og það af báðum kynjum, auk þess að fræða alla helstu þjálfarana á námskeiðum. Það er óhætt að fullyrða að enginn þjálfari komist með tærnar þar sem Guðni hefur hælana þegar kemur að uppbyggingu fjölda íslensks landsliðsfólks í knattspyrnu, en þar er einmitt um að ræða þá einstaklinga og þau lið sem hafa hvað oftast orðið til þess að sameina þjóðina í gleði og stolti yfir afrekum á sviði íþróttanna.

Geðslag Guðna, sem alla tíð hefur verið bindindismaður hvað áfengi og tóbak varðar og ímynd heilbrigðs lífernis er ekki síður einstakt. Þrátt fyrir harða keppni á köflum hafa íþróttamennska hans, metnaður, heilindi, reynsla, viska, reglusemi og virðing og umhyggja fyrir fólki og verkefnum alls staðar og ávallt skinið í gegn. Ennfremur eru hógværð og sá hæfileiki að koma jafnt fram við alla persónueinkenni sem umlykja þá sem umgangast Guðna. Þessir kostir helstir, burtséð frá árangri á íþróttasviðinu gera það að verkum einir og sér að Guðni er Íslendingum öllum kjörin og nauðsynleg fyrirmynd. Einmitt þess vegna er Guðni dæmi um manneskju sem vel er komin að því að vera heiðruð fyrir ævistarf sitt.

Guðni er ekki maður sem sækist eftir hóli fyrir sín störf og þegar kemur að fólki eins og honum sem á skilið viðurkenningar á opinberum vettvangi fyrir að hafa haft jafn jákvæð og góð áhrif á mikinn fjölda samferðafólks og raun ber vitni er það skylda okkar að vekja athygli á slíku, svo framkoma þess, árangur og lífstíll fái verðskuldaða athygli og geti orðið öðrum til fyrirmyndar, hvatningar og eftirbreytni.

Eftirtaldir aðilar eru þakklátir fyrir að hafa notið samstarfs og samveru við Guðna Kjartansson og/eða leiðsagnar hans og studdu tilnefningu hans til Fálkaorðunnar heilshugar.

Æskufélagi frá Keflavík:
Gunnar Þórðarson

Nemendur Guðna úr Njarðvíkurskóla:
Margrét Sanders
Guðmundur Kjartansson

Nemendur Guðna úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja:
Haraldur Axel Einarsson
Bryndís Jóna Magnúsdóttir
Kristinn Guðbrandsson

Samstarfsmaður Guðna úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja:
Gunnar Magnús Jónsson

Samherjar úr knattspyrnuliði Keflvíkinga á sjöunda og áttunda áratugnum (“Gullaldarliðinu”):
Ástráður Gunnarsson
Magnús Torfason
Einar Gunnarsson
Steinar Jóhannsson

Samherjar Guðna úr A landsliði Íslands:
Marteinn Geirsson
Ellert B. Schram

Andstæðingur Guðna á knattspyrnuvellinum:
Hörður Hilmarsson

Leikmenn úr knattspyrnuliði Keflavíkur, sem léku undir hans stjórn:
Sigurður Björgvinsson
Guðjón Guðjónsson
Samstarfsmenn Guðna við þjálfun A landsliðs karla:
Siegfried Held
Tony Knapp
Atli Eðvaldsson

Leikmenn sem léku undir stjórn Guðna í A landsliði karla:
Arnór Guðjohnsen
Ásgeir Sigurvinsson
Pétur Pétursson
Guðni Bergsson
Sigurður Jónsson
Þorgrímur Þráinsson

Leikmenn sem léku undir stjórn Guðna í U21 árs landsliði karla:
Heimir Guðjónsson
Eyjólfur Sverrisson

Leikmenn sem léku undir stjórn Guðna hjá K.R.
Gunnar Oddsson
Rúnar Kristinsson

Leikmenn sem léku undir stjórn Guðna í U18/U19 ára landsliði karla:
Eiður Smári Guðjohnsen
Gylfi Þór Sigurðsson
Aron Einar Gunnarsson
Ívar Ingimarsson
Jóhann Birnir Guðmundsson

Samstarfsmaður við þjálfun A landsliðs kvenna:
Sigurður Ragnar Eyjólfsson

Leikmenn sem léku undir stjórn Guðna í A landsliði kvenna:
Katrín Jónsdóttir
Edda Garðarsdóttir
Margrét Lára Viðarsdóttir
Sara Björk Gunnarsdóttir

Nemendur af þjálfaranámskeiðum KSÍ:
Ólafur Helgi Kristjánsson
Óli Stefán Flóventsson

Samstarfsfólk hjá KSÍ:
Ómar Smárason
Geir Þorsteinsson
Dagur Sveinn Dagbjartsson

Fulltrúar fjölmiðla sem fylgst hafa með ferli Guðna:
Sigmundur Ó. Steinarsson
Bjarni Felixson
Víðir Sigurðsson
Athugasemdir
banner
banner
banner