Grótta vann nauman 1-0 sigur á Keflavík í 2. umferð Lengjudeildar karla í kvöld. Keflavík var að tapa öðrum leik sínum í röð. ÍR-ingar náðu að krækja stig með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma í 1-1 jafntefli gegn Grindavík í Safamýri.
Grindavík mun spila heimaleiki sína í Safamýri þetta tímabilið vegna þeirra jarðhræinga sem hafa átt sér stað á Reykjanesskaganum síðasta árið.
Kwame Quee skoraði eina mark Grindavíkur gegn ÍR, en það kom á 10. mínútu leiksins með skalla eftir sendingu Einars Karls Ingvarssonar.
Bæði lið áttu góða kafla í fyrri hálfleiknum en það var Grindavík sem var með forystu þegar gengið var til búningsherbergja.
ÍR-ingar mættu sprækari inn í síðari hálfleikinn. Bragi Karl BJarkason átti skalla framhjá markinu og þá komst Guðjón Máni Magnússon einn í gegn en Aron Dagur Birnuson, markvörður Grindvíkinga, var fljótur að átta sig með góðu úthlaupi.
Varamaðurinn Hrannar Ingi Magnússon kom inn af bekknum hjá Grindavík og skoraði, en markið var dæmt af vegna brot í aðdraganda marksins.
ÍR-ingar fóru að pressa niður Grindvíkinga á lokakaflanum og bar það árangur. Dennis Nieblas handlék boltann innan teigs og jafnaði Bragi Karl úr vítinu.
Gestirnir fengu tvö úrvalsfæri til að fullkomna endurkomuna. Fyrst fékk Bergvin Fannar Helgason boltann, en Grindvíkingar komust fyrir skotið áður en Aron Dagur varði vel frá Braga.
Súrsætt hjá ÍR-ingum sem eru eflaust ánægður með að fá stig en gátu vel gert út um leikinn á lokasekúndunum. ÍR er með 4 stig úr tveimur leikjum en Grindavík var að sækja fyrsta stig sitt í sumar.
Fyrsti sigur Gróttu
Grótta lagði Keflavík að velli, 1-0, á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi.
Gestirnir í Keflavík voru fyrstir til að setja boltann í netið, en það mark fékk ekki að standa. Sami Kamel kom með aukaspyrnu á fjær þar sem Nacho Heras var mættur. Hann setti boltann framhjá Rafal Stefán Daníelssyni í markinu, en rangstæða dæmd.
Sex mínútum síðar skoraði Grótta eina mark leiksins. Hilmar McShane sendi glæsilega sendingu inn fyrir á Tómas Orra Róbertsson sem kláraði listavel framhjá Ásgeiri Orra Magnússyni í markinu.
Undir lok hálfleiksins var Hilmar borinn af velli á sjúkrabörum vegna meiðsla og í kjölfarið fluttur á spítala. Rétt áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks.
Heimamenn voru nálægt því að tvöfalda forystu sína á 57. mínútu er Kristófer Orri Pétursson sendi Axel Sigurðarson í gegn, en Axel þrumaði boltanum beint á Ásgeir í markinu.
Tuttugu mínútum fyrir leikslok fækkaði í liði Keflavíkur er Sindri Snær Magnússon var rekinn af velli með beint rautt spjald og Keflvíkingar því tíu síðustu mínúturnar.
Þrátt fyrir að vera aðeins tíu á vellinum þá tókst þeim næstum því að jafna metin undir lokin. Sami Kamel kom með sendinguna í gegn á Óliver Andra Einarsson, sem vippaði boltanum yfir Rafal og í slá.
Heppnin ekki með Keflvíkingum þarna sem voru að tapa öðrum leik sínum í deildinni. Grótta er á meðan taplaust, með fjögur stig úr tveimur leikjum.
Úrslit og markaskorarar:
Grindavík 1 - 1 ÍR
1-0 Kwame Quee ('10 )
1-1 Bragi Karl Bjarkason ('93 , víti)
Lestu um leikinn
Grótta 1 - 0 Keflavík
1-0 Tómas Orri Róbertsson ('38 )
Rautt spjald: Sindri Snær Magnússon, Keflavík ('72) Lestu um leikinn
Athugasemdir