Lærisveinar Milos Milojevic, Al Wasl frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum, eru á góðri siglingu í Meistaradeild Asíu en liðið hefur ekki tapað í síðustu fjórum leikjum í keppninni.
Liðið náði forystunni gegn Al Rayyan frá Katar en sjálfsmark undir lok leiksins varð til þess að leikurinn endaði með jafntefli.
Átta efstu liðin í riðlinum fara áfram í 16 liða úrslit en Al Wasl leikur í Vesturdeild. Liðið er með 11 stig þegar tvær umferðir eru eftir. Liðið á ansi erfiða leiki eftir en andstæðingarnir eru sádí arabísku liðin Al Nassr og Al Hilal.
Aron Einar Gunnarsson og félagar í Al-Gharafa eru efstir fyrir utan efstu átta liðin en liðið er með fjögur stig og á þrjá leiki eftir.
Rúnar Alex Rúnarsson er úti í kuldanum hjá FCK en hann var ekki í hóp gegn Nordsjælland í dag. Þetta var þriðji deildarleikurinn í röð þar sem Rúnar er ekki í hópnum en hann er orðinn þriðji markvörður liðsins.
FCK vann leikinn 3-1 og endurheimti toppsætið en liðið er með 33 stig eins og Midtjylland eftir 17 umferðir.
Þá hefur Óttar Magnús Karlsson ekki verið í hóp hjá Spal í fjórum síðustu leikjum í næst efstu deild á Ítalíu. Liðið tapaði 5-1 gegn Pontedera í kvöld. Spal er í 16. sæti með 17 stig eftir 17 umferðir.