Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 04. mars 2020 19:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jón Þór: Leikurinn var mjög slakur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Auðvitað er gott að vinna og byrja landsliðsárið á sigri," sagði Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari kvenna, eftir 1-0 sigur á Norður-Írlandi á Pinatar æfingamótinu á Spáni í dag.

Dagný Brynjarsdóttir kom Íslandi yfir á 24. mínútu þegar fyrirgjöf hennar frá hægri sveif yfir markvörð andstæðingana og í netið. Það reyndist eina mark leiksins.

„Það er gott að halda hreinu og það er gott að venja sig á að vinna fótboltaleiki. Þetta var ekki okkar besti landsleikur, hann var mjög slakur og sennilega okkar slakasti. Það er tæpt hálft ár síðan við spiluðum síðast og við vissum að það tæki tíma að koma okkur í gang aftur," sagði landsliðsþjálfarinn sem tók við liðinu í október 2018.

„Heilt yfir voru þetta nokkur vonbrigði. Mér fannst við létum boltann ganga alltof hægt, við náum ekki takti í spilið okkar, sendingar eru slakar og þar af leiðandi móttökur erfiðar."

„Það er heilmargt sem við þurfum að laga og við þurfum að gera það fljótt. Sem betur fer fáum við tækifæri til þess á laugardaginn."

Cecilía Rán Rúnarsdóttir, sextán ára markvörður Fylkis, varð yngsti markvörður íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi með því að spila í dag. Hún spilaði sinn fyrsta landsleik og stóð sig vel.

„Cecilía er okkar ungi markvörður og hún heldur hreinu í sínum fyrsta landsleik. Hún var sennilega okkar besti leikmaður í þessum leik. Nýliðinn í markinu var þess valdandi að við héldum hreinu," sagði Jón Þór.

Hildur Antonsdóttir og Natasha Anasi léku einnig sinn fyrsta A-landsleik fyrir Ísland.



Athugasemdir
banner
banner