mið 05. maí 2021 15:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2. deild kvenna: 9. sæti
Hamar er spáð 9. sæti í sumar
Hamar er spáð 9. sæti í sumar
Mynd: Aðsend
Mynd: Bernhard Kristinn
Indverski landsliðsmarkvörðurinn Adidi Chauhan spilar með Hamar í sumar
Indverski landsliðsmarkvörðurinn Adidi Chauhan spilar með Hamar í sumar
Mynd: Alberto Larrea
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2.deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-12 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7.
8.
9. Hamar
10. Álftanes
11. SR
12. Einherji
13. KM

Lokastaða í fyrra: 6. sæti í 2. deild

Þjálfari: Hermann Hreinsson, alltaf kallaður Hemmi, verður áfram með Hamarsliðið í sumar.

Hamar var spútnik- og stemmningslið síðasta tímabils þegar liðið mætti til leiks í fyrsta sinn í 35 ár. Það verður áhugavert að sjá hvernig liðið fylgir síðasta tímabili eftir en leikmannahópurinn er svipaður og í fyrra.

Lykilmenn: Dagný Rún Gísladóttir, Íris Sverrisdóttir, Aditi Chauhan

Gaman að fylgjast með: Það verða ansi mörg augu á indverska landsliðsmarkmanninum Aditi Chauhan. Aditi er 28 ára gömul og hefur meðal annars spilað með West Ham United. Hún kemur frá Gokulum Kerala á Indlandi þar sem hún varð Indlandsmeistari á síðasta ári.

Við heyrðum í Hemma þjálfara og spurðum hann út í spánna og sumarið:

Hvað finnst þér um að vera spáð 9. sætinu og kemur það á óvart

„Nei, það kemur ekki á óvart en auðvitað stefnum við ofar. Mörg lið eru spurningamerki í sumar og mörg lið búin að styrkja sig með útlendingum þannig að þetta verður bara gaman.”

Hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið?

„Það hefur bara gengið ótrúlega vel. Stelpurnar hafa verið mjög duglegar að æfa sjálfar í þessari Covid pásu og koma vel tilbúnar til leiks. Við erum með stóran hóp sem hefur verið vel samstilltur um að láta þetta allt ganga vel og sama hvaða vandamál koma upp þá er það bara tæklað.”

Hver eru markmið liðsins í sumar?

„Okkar markmið er að búa til lið í Hveragerði sem er komið til að vera. Við vitum vel um okkar styrkleika og erum að vinna vel í okkar veikleikum þannig að okkar markmið er að gera gott mót í sumar og búa til lið til framtíðar sem verður Hveragerði til sóma.”

Er liðið mikið breytt frá því í fyrra?

„Nei, við höldum okkar kjarna að mestu leyti. Fengum tvær frá Breiðablik, þær Töru og Vallý, sem koma mjög skemmtilega inní þetta hjá okkur og síðan fengum við Brynju Valgeirsdóttir frá Selfossi sem er alveg ótrúlega mikill styrkur bæði fótboltalega og líka félagslega. Annars er hópurinn bara að verða þéttari og þéttari. Er svo lánsamur að hafa marga mjög sterka leiðtoga í liðinu og liðið er skemmtileg blanda af reynslumiklum leikmönnum og yngri.”

Hvernig áttu von á að deildin spilist í sumar?

„Ég tel að Fjölnir muni fara auðveldlega upp og síðan verður mikil keppni um hvaða lið mun fylgja þeim. Er ekki líklegt að liðið sem féll með Fjölni, Völsungur fari með þeim aftur upp? ÍR og Fram búnar að styrkja sig vel í vetur og síðan er fróðlegt að sjá hvernig Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir mun koma til leiks.Finnst KH vera með mjög skemmtilegt lið og verður gaman að fylgjast með þeim. Sindri er alltaf með skemmtilegt lið og verður engin breyting á því í sumar. Síðan tel ég að það verði fullt af óvæntum úrslitum í sumar í 2.deildinni og verður fróðlegt að fylgjast með öllum þessum nýju liðum.”

Ertu sáttur við keppnisfyrirkomulag í deildinni?

„Ég er bara þakklátur að fá að spila í sumar og stelpurnar hjá mér ætla bara að njóta. Það hefði verið skemmtilegra að hafa stærri úrslitakeppni en vonandi koma bara fleiri lið inn fyrir næsta tímabil þannig að hægt sé hafa tvo riðla og síðan skemmtilega úrslitakeppni eftir það.”

„Ég vil bara hrósa þessum nýju félögum fyrir að koma og taka slaginn í sumar. Það vantar meiri litróf í kvennaboltann og fjölbreytni er bara af því góða. Vona að innan fárra ára verði komin 3. deild kvenna og þá gætu allar konur sem vilja spila fótbolta fundið sinn farveg.”


Komnar:
Aditi Chauhan frá Gokulum Kerala í Indlandi
Brynja Valgeirsdóttir frá Selfossi
Tara Ríkharðsdóttir frá Breiðabliki
Valgerður Laufey Guðmundsdóttir frá Augnabliki

Farnar:
Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir í FH

Fyrstu leikir Hamars:
12. maí KH - Hamar
21. maí Hamar - KM
30. maí Einherji - Hamar
Athugasemdir
banner
banner
banner