Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   mán 05. júlí 2021 12:43
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ætlum að halda okkar mönnum, bæta við og keyra á þetta"
Lengjudeildin
Það hefur ekki mikið gengið upp hjá Fjölni að undanförnu.
Það hefur ekki mikið gengið upp hjá Fjölni að undanförnu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásmundur Arnarsson og Baldur Sigurðsson, þjálfarar FJölnis, ræða saman.
Ásmundur Arnarsson og Baldur Sigurðsson, þjálfarar FJölnis, ræða saman.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Fjölnis og Víkings Ó. 10. júní. Það var síðasti sigurleikur Fjölnis.
Úr leik Fjölnis og Víkings Ó. 10. júní. Það var síðasti sigurleikur Fjölnis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir öfluga byrjun í Lengjudeildinni hafa FJölnismenn hikstað og sitja núna í sjötta sæti deildarinnar þegar mótið er rétt tæplega hálfnað.

Fjölnir vann fyrstu þrjá leiki sína en síðan þá hafa þeir unnið einn leik - gegn Víkingi Ólafsvík - gert tvö jafntefli og tapað fjórum leikjum.

Síðast töpuðu þeir gegn Vestra á útivelli í gær, 2-1. Kolbeinn Kristinsson, formaður knattspyrnudeildar Fjölnis, segir að árangurinn sé vissulega vonbrigði.

„Það er enginn sáttur. Við ætluðum ekki að vera með þetta fá stig eftir tíu leiki. Að sama skapi er mótið rétt tæplega hálfnað og þessi deild er þannig að mínu mati að þú getur unnið tvo leiki í röð og þá er stutt í toppinn og allir glaðir, svo vinnurðu ekki tvo leiki í röð og þá er mjög stutt í miðja töfluna," segir Kolbeinn við Fótbolta.net.

Staða Ása
Ásmundur Arnarsson kom Fjölni upp í Pepsi Max-deildina fyrir tveimur árum en liðið féll aftur í fyrra. Hefur komið til tals að gera þjálfarabreytingar?

„Við höfum í sjálfu sér ekki skoðað það neitt undanfarið. Staða liðsins er vonbrigði en við erum ekki af baki dottnir," segir Kolbeinn.

„Við ætlum að styrkja okkur í glugganum, fá leikmenn inn og setja sigra á töfluna - fyrst og síðast. Það hefur ekkert komið til tals," sagði Kolbeinn um stöðuna á þjálfara liðsins.

Félagaskiptaglugginn
Félagaskiptaglugginn var að opna fyrir nokkrum dögum síðan og Fjölnir er að vinna í því að styrkja leikmannahóp sinn. Félagið vonast til að fá inn 2-3 leikmenn.

„Við erum byrjaðir að skoða og erum með öll net úti, bæði að skoða hér heima og eitthvað erlendis. Markaðurinn hér heima, það er hægt að detta á góða bita en svo er það fljótt farið frá manni; þetta er áhugaverður markaður hér heima - félögin halda að sér höndum lengi, segja eitt og gera annað."

„Við stefnum ótrauðir á að styrkja okkur og viljum fá 2-3 leikmenn í glugganum."

Það hefur verið slúðrað um að sóknarmaður af erlendu bergi brotinn sé á leið í Fjölni. „Ég get fullyrt að við séum ekki í viðræðum við neinn erlendan sóknarmann. Það, eins og annað, getur breyst á næstu tveimur sólarhringum. En það eru engar viðræður núna."

Jóhann Árni
Það var rætt um það í útvarpsþættinum á laugardag að félög í Pepsi Max-deildinni ættu að skoða það að fá Jóhann Árna Gunnarsson inn núna. Fjölnir ætlar hins vegar ekki að láta hann fara.

„Ekki á miðju tímabili. Jóhann Árni er toppleikmaður, Fjölnismaður og fyrirliði okkar núna þegar Dofri er meiddur. Hann var fyrirliði í gær og spilaði vel. Liðið spilaði vel í gær ef þú spyrð mig. Við áttum fimm dauðafæri í seinni hálfleik en það datt ekki fyrir okkur. Við erum að klúðra þessu sjálfir og þess vegna erum við núna að tala um stöðu Ása, stöðu Jóa og svo framvegis. Ef við hefðum unnið í gær, þá værum við í þriðja sæti og tveimur stigum frá Pepsi Max sæti. Þetta er þéttur pakki."

„Það er ekkert sem hefur heldur komið til tals hjá okkur. Við ætlum að halda okkar mönnum, bæta við og keyra á þetta í seinni umferðinni. Engin spurning," sagði Kolbeinn en Fjölnir á næst heimaleik við Selfoss næstkomandi föstudag.
Athugasemdir
banner
banner