mán 05. júlí 2021 11:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Vonbrigði í sumar og þess vegna „leikmaður sem á að taka núna"
Lengjudeildin
Jóhann Árni Gunnarsson.
Jóhann Árni Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðjumaðurinn Jóhann Árni Gunnarsson hefur ekki sýnt sínar bestu hliðar í Lengjudeildinni í sumar.

Jóhann er á 20. aldursári og hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað með meistaraflokki Fjölnis frá 2018.

Jóhann á 19 yngri landsleiki að baki og er algjör lykilmaður í liði Fjölnis. Fyrir tímabilið valdi Úlfur Blandon, sérfræðingur Fótbolta.net um Lengjudeildina, Jóhann sem lykilmann liðsins.

„Það voru þónokkur félög í Pepsi Max-deildinni sem höfðu áhuga á að fá hann í sínar raðir fyrir tímabilið. Virkilega flottur ungur leikmaður með gott auga fyrir spili, frábærar sendingar, tæknilega mjög góður og afburða skotfót bæði sem á eftir að nýtast í föstum leikatriðum og í opnum leik," sagði Úlfur um Jóhann Árna.

Tímabilið hefur hins vegar ekki verið sérstakt hjá miðjumanninum hæfileikaríka. Rætt var um Jóhann í útvarpsþættinum á laugardag. Íþróttafréttamaðurinn Tómas Þór Þórðarson er á þeirri skoðun að félög í Pepsi Max-deildinni eigi að reyna að kaupa hann núna.

„Ef þú hefðir til dæmis reynt í glugganum í fyrra að fá Jóhann Árna Gunnarsson - okkar mann - þá hefðir þú örugglega þurft að borga 3 milljónir eða eitthvað. Hann er leikmaður sem þú getur selt út ef hann stendur sig vel, eða fengið hann í tíu ár. Núna er hann ekkert búinn að gera. Hann er búinn að vera mikil vonbrigði og það er allt í lagi. Stundum er allt í lagi að vera vonbrigði. Ef þú ert vonbrigði, þá þýðir það að þú sért búinn að setja þakið ákveðið hátt," sagði Tómas Þór.

„Fyrir strák fæddan 2001, ef við erum að tala um að þú sért vonbrigði í einhverju liði, þá þýðir það að á einhverjum árum á undan þegar þú ert 17, 18, 19 ára gamall, þá höfum við talið þig það góðan... þetta er allt í lagi, það koma dýfur hjá ungum leikmönnum."

„Hann er klárlega leikmaður - og mér fannst það góður punktur hjá Hjörvari (Hafliðasyni) - sem á að taka núna; ef þú ert í miðlungs lið í Pepsi Max-deildinni, og jafnvel ofar. Af hverju á Valur þess vegna ekki að ná í hann? Hann getur spilað áfram í Fjölni en bara að ná í hann núna þegar verðbréfin eru ekki upp í þaki. Hæfileikarnir eru óumdeildir. Hann er klárlega strákur sem Pepsi Max-deildarliðin ættu að skoða þegar hann kostar ekki jafnmikið og í fyrra," sagði Tómas jafnframt en hægt er að hlusta á allan útvarpsþáttinn hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Íslenski boltinn og Ítalía á EM
Athugasemdir
banner
banner
banner