Van Dijk og Salah til Al-Ahli? - United vill fá Pau Torres - Ronaldo segir Al-Nassr að gera tilboð í De Bruyne - Alonso arftaki Ten Hag?
banner
   fös 06. september 2024 22:13
Brynjar Ingi Erluson
Þjálfari Svartfellinga: Seinna markið er óskiljanlegt
Icelandair
Robert Prosinecki
Robert Prosinecki
Mynd: Getty Images
Ísland gerði vel í hornspyrnunum
Ísland gerði vel í hornspyrnunum
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Robert Prosinecki, þjálfari Svartfjallalands, segir að Ísland hafi verðskuldað sigurinn í kvöld þó að liðið hafi ekki ógnað neitt sérlega mikið í leiknum.

Lestu um leikinn: Ísland 2 -  0 Svartfjallaland

Bæði mörk Íslands komu eftir hornspyrnu. Orri Steinn Óskarsson stangaði hornspyrnu Jóhanns Berg Guðmundssonar í netið á 39. mínútu og þá gerði Jón Dagur Þorsteinsson seinna markið snemma í síðari hálfleiknum.

Uppskriftin svipuð og dugði það til sigurs þó frammistaðan hafi ekki verið stórkostleg.

„Við vissum hver þeirra helsti styrkleiki væri og þeir nýttu sér hann þó við höfum lagt mikla vinnu í að trufla þá. Ég get skilið fyrsta markið eftir hornspyrnuna en seinna markið er óskiljanlegt. Leikmaðurinn stendur einn á nærstönginni og skorar,“ sagði Prosinecki.

„Við vitum að þetta er skipulagt lið sem er með líkamlegan styrk. Þeir vita hvað þeir vilja og þegar allt kemur til alls verðum við að segja að sigur þeirra hafi verið verðskuldaður. Við nýttum ekki færin, þeir nýttu sín. Núna snúum við okkur að Wales.“

„Sumir hlutir voru mjög góðir en aðra hluti þurfum við að laga. Við verðum að reyna við sigur í Niksic. Það verða breytingar og við höfum verið í basli með hópinn. Ég vona að nokkrir leikmenn nái að jafna sig, en það var líka gott að Jovecic fékk 30 mínútur því hann hafði ekki spilað í langan tíma.“

„Við vorum í vandræðum þegar við töpuðum boltanum. Við verðum að vera rólegri á boltann þegar við erum að koma honum fram völlinn. Ég get ekki sagt að leikmennirnir hafi ekki barist, en einbeitingin verður að vera betri, sérstaklega í föstu leikatriðunum.“


Prosinecki benti á það að lið hans megi ekki gefa mörk svona auðveldlega og sérstaklega gegn Íslandi. Í kjölfarið baðst hann afsökunar á tapinu.

„Mér fannst við geta tengt Jovovic betur við miðju og sókn. Á sumum augnablikum leit þetta vel út, en það þarf líka að taka fram að Brnovic var stórkostlegur. Við notuðum vængina svolítið og það var pláss til þess. Þannig náðum við að skapa tvö færi. Við erum bara í miklu basli á miðsvæðinu þegar Jankovic er ekki með. Ég veit af því og mun vinna í því. Jovetic kom með klassa inn af bekknum og þá fór eitthvað að gerast. Það verða breytingar og ég biðst afsökunar á að við töpuðum á þennan hátt því Ísland er ekki alveg á því stigi að vinna okkur svona auðveldlega eftir föst leikatriði.“

„Ég er sáttur því við vildum spila. Á einum tímapunkti vorum við að gera vel og það voru færi. Við vildum komast að markinu með því að spila okkur í gegn. Ísland ógnaði í raun ekki neitt fyrir utan þessi tvö mörk og á engum tímapunkti leið mér eins og þeir væru að ógna okkur. Það vantaði upp á einbeitingu í okkar liði,“
sagði Prosinecki í lokin,.
Athugasemdir
banner