Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mið 06. desember 2023 12:42
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Vísir 
Orðinn næstmarkahæstur í þeirri elstu og virtustu - Alltaf klár ef kallið kemur
Hefur ekki byrjað leik í deildinni á tímabilinu.
Hefur ekki byrjað leik í deildinni á tímabilinu.
Mynd: Getty Images
Jón Daði á að baki 64 landsleiki.
Jón Daði á að baki 64 landsleiki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í stúkunni á EM kvenna í fyrra.
Í stúkunni á EM kvenna í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Daði Böðvarsson skoraði þrennu í bikarsigri Bolton gegn Harrogate Town um helgina. Með mörkunum er hann orðinn næst markahæsti Íslendingurinn í sögu ensku bikarkeppninnar með sjö mörk.

Hann var fyrir leikinn jafn Heiðari Helgusyni með fjögur mörk en komst upp fyrir Gylfa Þór Sigurðsson sem hefur skorað sex mörk skoruð í bikarkeppninni á sínum ferli. Efstur á lista er Eiður Smári Guðjohnsen sem skoraði sextán mörk í enska bikarnum á sínum ferli. Mörkin sjö hefur Jón Daði skorað í ellefu leikjum.

Jón Daði skoraði þrjú fyrstu mörkin í 5-1 heimasigri, öll mörkin hans komu í fyrri hálfleik. Jón Daði ræddi við Vísi/Stöð 2 í gær.

„Þetta var bara einn af þessum leikjum þar sem allt fór inn hjá manni. Ég náði upp alvöru sjálfstrausti frá fyrstu mínútu og þetta var virkilega skemmtilegt. Gaman að vera kominn áfram í næstu umferð í bikarnum."

Bolton heimsækir úrvalsdeildarliðið Luton í 3. umferð. Liðið er á góðu skriði í ensku C-deildinni og situr í 2. sæti. Tækifærin hafa verið af skornum skammti hjá Jóni Daða að undanförnu. „Auðvitað eru það vonbrigði að fá ekki að spila meira og þá sérstaklega í deildinni en engu að síður finnst mér ég vera með stórt hlutverk þrátt fyrir að vera á bekknum. Það er partur af því að vera í góðu liði og ná árangri. Það eru allir í þessu saman."

Jón Daði var í viðtalinu spurður út í íslenska landsliðið en hann hefur ekki spilað landsleik í eitt og hálft ár. Hann er 31 árs og á að baki 64 landsleiki.

„Ég hef ekki fengið nein símtöl eða skilaboð, svo einfalt er það. Það er bara hans mat [landsliðsþjálfarans] og ég hef ekki heyrt neitt eins og er sem er kannski alveg skiljanlegt. Það er ný kynslóð þarna og við viljum líka breyta til og ná árangri. Auðvitað vill maður vera partur af íslenska landsliðinu og íslensku þjóðinni. Ef ég á að vera hreinskilinn þá hef ég ekki heyrt neitt," sagði Jón Daði.

„Ég er alltaf klár," sagði sóknarmaðurinn aðspurður hvort hann væri klár ef kallið kæmi.

Framundan hjá íslenska landsliðinu er umspil um sæti á EM, leikur gegn Ísrael í mars.

Bolton vann Port Vale í 32- liða úrslitum neðri deilda bikarsins í gær. Jón Daði var ónotaður varamaður í leiknum.



Athugasemdir
banner