
Jón Daði Böðvarsson var lykilmaður í velgengni landsliðsins og hjálpaði hann liðinu að komast á bæði EM og HM.
Þessi 31 árs gamli sóknarmaður er í dag á mála hjá Bolton í C-deildinni á Englandi.
Hann er á þessu tímabili búinn að koma níu sinnum inn á sem varamaður í deildinni með félaginu og hefur hann byrjað tvo bikarleiki. Hann hefur ekki enn byrjað leik í deildinni en er samt sem áður að spila.
Það er langt síðan Jón Daði hefur verið í landsliðinu. Hann datt út úr myndinni hjá Arnari Þór Viðarssyni og hefur ekki komist í hópinn hjá Hareide. Síðasti leikur sem Jón Daði spilaði var í 5-0 tapi gegn Spáni í vináttulandsleik undir lok mars í fyrra.
„Ég hef verið að fylgjast með öllum í raun og veru. Ég hef verið að fylgjast með honum og bera hann saman við aðra leikmenn. Í augnablikinu eru aðrir leikmenn að spila á hærra stigi og eru ofar í huga mér," sagði Hareide á fréttamannafundi í dag.
„Það stoppar mig ekki í að skoða leikmenn. Hann spilar með félagsliði sínu þegar umspilið er í mars og það er mikilvægt. Þú þarft að taka ákvarðanir sem landsliðsþjálfari og það er mikilvægt að vera með leikmenn sem geta spilað saman, og þróast saman."
Athugasemdir