Branthwaite á lista Man Utd - Lampard vill ræða við Rangers - Messi ætlar að klára ferilinn í Argentínu
   mið 07. júní 2023 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Sneri aftur eftir 411 daga - „Það eru spennandi tímar framundan"
watermark Kristín Dís Árnadóttir, leikmaður Bröndby.
Kristín Dís Árnadóttir, leikmaður Bröndby.
Mynd: Bröndby
watermark Í leik með Bröndby á síðasta ári.
Í leik með Bröndby á síðasta ári.
Mynd: Bröndby/Mikkel Joh
watermark Á æfingu hjá danska stórliðinu.
Á æfingu hjá danska stórliðinu.
Mynd: Bröndby
watermark Á landsliðsæfingu.
Á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Í leik með Breiðabliki í Meistaradeildinni.
Í leik með Breiðabliki í Meistaradeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark 'Ég er mjög spennt fyrir næsta tímabili. Ég ætla að sýna hvað ég get og reyna að fá sæti í liðinu. Það eru spennandi tímar framundan'
'Ég er mjög spennt fyrir næsta tímabili. Ég ætla að sýna hvað ég get og reyna að fá sæti í liðinu. Það eru spennandi tímar framundan'
Mynd: Bröndby/Mikkel Joh
Miðvörðurinn Kristín Dís Árnadóttir hafði beðið í 411 daga eftir því að snúa aftur á fótboltavöllinn þegar hún gerði það með Bröndby um síðustu helgi. Kristín Dís fékk að spila lokamínúturnar í stórsigri gegn KoldingQ, en þetta voru langþráðar mínútur.

„Þetta var mjög skemmtileg tilfinning, og ég var búin að bíða eftir þessu lengi. Ég var búin að æfa í nokkrar vikur með liðinu og tilfinningin að komast aftur út á völlinn var í raun bara ólýsanleg," segir Kristín í viðtali við Fótbolta.net þegar hún er spurð út í það hvernig það hafi verið að spila loksins aftur eftir erfið meiðsli.

Kristín varð fyrir því óláni að slíta krossband í leik með Bröndby stuttu eftir að hún gekk í raðir félagsins í fyrra.

„Ég finn það eiginlega strax. Ég er með hana í fanginu og hún snýr einhvern veginn. Ég ætlaði að snúa með henni en stíg fyrir hana. Hún hleypur mig niður og löppin festist undir. Ég heyri alls konar smelli og vissi þetta um leið," segir Kristín.

Gerist í fjórða leiknum með nýju félagi
Kristín, sem er uppalin í Breiðabliki, hafði verið frekar heppin með meiðsli á sínum ferli áður en hún meiðist í fyrra. Líkt og áður kemur fram þá var hún nýkomin út til Danmerkur þegar þetta gerist, en hún var að spila sinn fjórða deildarleik fyrir félagið.

„Ég spilaði nánast alla leikina með Breiðabliki og meiðist strax í fjórða leiknum í dönsku deildinni. Ég hef verið mjög heppin að sleppa við meiðsli, en þetta var ákveðið högg. Ég er búin að læra mikið á þessu, inn á sjálfa mig og hvernig á að fara í gegnum svona ferli. Þetta var mjög svekkjandi. Ég var búin að spila vel með Breiðabliki í mörg ár og fæ síðan tækifæri til að fara út. Svo hendir þetta manni niður á jörðina. Þetta var ógeðslega erfitt og mjög mikið svekkelsi að fá ekki að spreyta sig almennilega þegar maður kemur út."

„Ég sleit krossband í apríl og þurfti að bíða í tvo mánuði eftir að komast í aðgerð þar sem ég var svo ógeðslega bólgin og gat ekkert hreyft eða gert. Þetta er búið að vera mjög langt og mjög erfitt, en skilaði sér loksins," segir Kristín um endurhæfinguna og endurkomuna.

Endurhæfingin gekk í raun eins og í sögu
Kristín kom heim eftir að hún meiddist þar sem stutt var í sumarfrí. Hún gekkst undir aðgerð hérna og var í meðhöndlun hjá Særúnu Jónsdóttur, sjúkraþjálfara Breiðabliks.

„Ég leyfði mér að vera leið í einhverjar vikur en svo þýðir það ekkert. Þannig að maður þurfti að rífa sig í gang og taka á þessu verkefni. Það var það eina sem var hægt að gera. Ég ákvað að fara heim og taka aðgerðina þar. Ég var svo hjá Særúnu sjúkraþjálfara í Breiðabliki fyrri hlutann af endurhæfingunni áður en ég fór aftur út. Ég held að það hjálpað mér mjög mikið að fara heim. Ég þekki Særúnu mjög vel og hún var búin að vera með mig í mörg ár. Mér fannst það mjög mikilvægt, að koma heim og hafa hana með mér. Ég fékk gott prógramm frá henni," segir Kristín en það var líka gott að koma heim upp á það að vera í kringum fjölskyldu og vini í gegnum meiðslin.

„Við ákváðum að gera þetta svona því það var stutt í að deildin var búin. Þá kemur sumarfrí og þá hentaði það best að ég færi heim og væri þar þangað til ég gæti farið að gera aðeins meira. Svo fór ég aftur út. Ég var þakklát Bröndby að fá að fara heim. Ég fékk svolítið að ráða þessu sjálf - hvað væri best fyrir mig. Þau studdu mig í því. Ég fékk þann tíma sem ég vildi hér heima og gat svo komið út þegar ég var tilbúin í það. Mér fannst það skipta mjög miklu máli. Bröndby studdi vel við bakið á mér."

„Endurhæfingin gekk í raun eins og í sögu. Ég ákvað að vera þolinmóð og ég ætlaði ekkert að flýta mér að þessu. Markmiðið var bara að gera þetta vel og hægt, sem skilaði sér. Ég fór eftir prógramminu og svo fór þetta allt að rúlla hraðar og hraðar. Ég er mjög ánægð hversu skynsöm ég var og ég var ekkert að flýta mér. Ég held að reynslan spili svolítið inn í þar. Ef þetta hefði verið fimm árum þá hefði ég kannski verið aðeins æstari. Ég fór bara eftir fyrirmælum og var ekkert að setja mér einhver ákveðin markmið að spila á einhverjum sérstökum tíma. Ég held að það hafi verið mjög skynsamlegt."

Missti af Evrópumótinu
Kristín meiðist líka rétt fyrir Evrópumótið þar sem Ísland var á meðal þátttökuþjóða, en hún hafði verið viðloðandi hópinn.

„Maður er alltaf með einhverjar vonir, en ég var búin að vera inn og út eftir að Steini tók við. Auðvitað langaði mig að sýna mig hérna úti, spila vel og vonandi hefði það skilað einhverju. Svo gerist þetta og þá er draumurinn alveg úti," segir Kristín.

„Það var alltaf markmiðið að spila á þessu móti en eins og ég segi þá var ég búin að vera inn og út. Auðvitað var það svekkjandi að fá þessar fréttir og fá að vita að þetta væri alveg úti. Ég ætlaði samt aðallega að byrja á því að sýna mig og sanna hérna úti, að koma inn í þessa deild af krafti. Ég tek næsta tímabil í það."

Risastórt félag
Kristín Dís er á sínu öðru ári með Bröndby, sem er eitt stærsta félagið í Danmörku. Deildin í Danmörku er öflug. „Þetta er risastórt félag sem er búið að vinna marga titla í kvennaboltanum. Það eru mikil gæði í deildinni og í liðinu. Ég tók eftir því að það var mikill munur á gæðunum hérna."

Bröndby er í öðru sæti dönsku deildarinnar fyrir lokaumferðina en liðið er þremur stigum á eftir toppliði HB Köge. Bröndby og HB Köge mætast einmitt í lokaumferðinni en Bröndby þarf að vinna með ellefu marka mun til að vinna deildina.

„Ég hef aldrei verið í þessari stöðu áður að sitja bara upp í stúku. Það er búið að ganga mjög vel hjá liðinu og sérstaklega í úrslitakeppninni. Við höfum spilað mjög vel. Auðvitað er það skrýtið að vera upp í stúku allan tímann, en liðinu hefur gengið mjög vel. Við tryggðum okkur sæti í Meistaradeildinni sem skiptir okkur mjög miklu máli. Það. var svekkjandi að ná því ekki í fyrra þannig að það var markmiðið núna. Við erum búin að elta Köge allt tímabilið," segir Kristín og heldur áfram:

„Við þurfum að henda í ellefu mörk í lokaleiknum, það er bara þannig. Við settum okkur sjálfar í þessa holu, en það voru nokkrir leikir fyrir jól sem hefðu mátt fara betur. Þetta spilaðist ekki endilega vel fyrir okkur. Við vorum sjö stigum frá þeim þegar úrslitakeppnin byrjaði og við ætluðum að reyna að saxa á þær. Við erum búnar að gera það. Við getum endað með jafnmörg stig og þær, en þá skiptir markatalan máli. Það er ólíklegt að við tökum þetta 0-11, en maður veit aldrei."

„Köge er með hörkulið og með flotta umgjörð. Þær eru með góða útlendinga og góða danska leikmenn. Það verður gaman að sjá hvernig leikurinn fer á laugardaginn. Við unnum þær í fyrsta leik í úrslitakeppninni og erum búnar að vera flottar á móti þeim. Markmiðið er bara að reyna að vinna og skemma þetta partý einhvern veginn."

Kristín er samningsbundin Bröndby út næstu leiktíð og stefnir á að gera góða hluti núna þegar hún er búin að jafna sig af meiðslunum.

„Ég er mjög spennt fyrir næsta tímabili. Ég ætla að sýna hvað ég get og reyna að fá sæti í liðinu. Það eru spennandi tímar framundan, að fara í Meistaradeildina. Það er mjög spennandi og ég er staðráðin í því að næsta tímabil verði gott. Markmiðið númer eitt, tvö og þrjú er að spila vel. Markmiðið hjá liðinu er alltaf að sækja titla og spila vel í Meistaradeildinni," sagði þessi öflugi varnarmaður að lokum.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner