Fundað um Pochettino - Man City tryggir sér undrabarn - Arsenal ætlar að styrkja hópinn
   fim 07. október 2021 11:00
Elvar Geir Magnússon
Frægasta dómaraparið segir frá því hvernig ástarsambandið hófst
Webb yfirgaf eiginkonu sína og þrjú börn til að flytja til Steinhaus
Bibiana Steinhaus lagði flautuna á hilluna á síðasta ári.
Bibiana Steinhaus lagði flautuna á hilluna á síðasta ári.
Mynd: Getty Images
Howard Webb dæmdi úrslitaleik HM á dómaraferli sínum.
Howard Webb dæmdi úrslitaleik HM á dómaraferli sínum.
Mynd: Getty Images
Dómaraparið Howard Webb, sem var fyrir nokkrum árum fremsti dómari Englands, og Bibi Steinhaus hafa opnað sig um hvernig samband þeirra hófst en þau giftu sig fyrr á þessu ári.

Steinhaus er þýsk og er sá kvenkyns dómari sem hefur náð lengst en hún dæmdi í Bundesligu karla og var með flautuna á úrslitaleik HM kvenna 2011.

Þau kynntust fyrst á dómaranámskeiði í Róm 2013 og tveimur árum síðar ákveð Webb að bjóða henni í mat.

Hann var í átta tíma millilendingu í Frankfurt einn sunnudaginn og hafði samband við Steinhaus og spurði hvort hún væri tilbúin að hitta sig yfir kvöldverði.

„Í sannleika sagt hefði ég undir eðlilegum kringumstæðum fyrir sex árum ekki nennt að ferðast frá Hannover til Frankfurt í þrjá og hálfan tíma til að fara í mat með honum. En fyrir algjöra tilviljun var ég sett á leik í Frankfurt þennan dag," segir Steinhaus.

„Leikurinn kláraðist klukkan fimm og ég var tilbúin að hitta hann yfir kvöldverði klukkan sjö."

Í leiknum sem Steinhaus dæmdi í Frankfurt gaf hún Kerem Demirbay hjá Fortuna Dusseldorf rauða spjaldið. Eftir leikinn sagði hann að það væri ekkert pláss fyrir kvenfólk í karlabolta. Hann fékk svo fimm leikja bann fyrir þau ummæli.

Ástin kviknaði milli Webb og Steinhaus um kvöldið og hún viðurkenndi að þegar Webb hafi kvatt og farið í flug heim hafi hún fundið að „heimurinn væri orðinn öðruvísi".

Ekki löngu síðar tilkynnti Webb eiginkonu sinni, eftir 21 árs samband, að hann væri búinn að ákveða að flytja til Hannover og búa með Steinhaus. Hann og fyrrum kona hans áttu þrjú börn saman.

„Samband okkar hafði breyst en það er allt í góðu milli okkar í dag. Krakkarnir spjara sig vel. En eins og aðrir skilnaðir þá var þetta sársaukafullt," segir Webb. Hann á það sameiginlegt með Steinhaus að bæði létu þau af lögreglustörfum til að sinna fótboltadómgæslu sem atvinnu. Í mars á þessu ári giftu þau sig en vegna Covid takmarkana voru engir gestir í brúðkaupsveislunni.

„Við erum gríðarlega hamingjusöm. Því miður gat enginn notið þessarar stundar með okkur og við fórum heldur ekki í brúðkaupsferð," segir Steinhaus.
Athugasemdir
banner
banner
banner