Það hefur hvorki gengið né rekið á West Ham það sem af er tímabili. Liðið situr í 19. sæti deildarinnar og hefur í seinustu tveimur leikjum fengið á sig ellefu mörk. Ofan á allt þetta telja veðbankar að Sam Allardyce fái bráðum að fjúka en stjórnin hefur lýst yfir stuðningi við hann.
Næstu vikur og mánuðir munu skýra framtíð West Ham og þær ákvarðanir sem David Sullivan og David Gold, aðaleigendur félagsins, munu taka eiga eftir að hafa úrslitaáhrif. Í tilefni þess var Eggert Magnússon, fyrrum stjórnarformaður West Ham, í spjalli hjá FourFourTwo.
Eggert kom eins og stormsveipur inn í enska knattpsyrnu ásamt Björgólfi Guðmundssyni árið 2006 en þá keyptu þeir meirihlutann í félaginu. Einnig fjárfestu þeir í leikmönnum á borð við Javier Mascherano og Carlos Tevez og tókst á ævintýranlegan hátt að halda sér í ensku úrsvaldeildinni tímabilið 2006-07 með því að sigra Man Utd í lokaleiknum.
„Það er merkilegt að alltaf þegar nýir menn taka við stjórnvölunum þá þurfa þeir að byrja á að sverta forvera sína. Knattspyrnustjórar gera þetta, bölva forminu á leikmönnum þegar þeir koma nýir inn.“
„Það er eins með fótbolta og það er með lífið, þú verður að taka ákvarðanir. Sumar ákvarðanir eru réttar en aðrar eru rangar. Margt gott hefur verið gert hjá West Ham að undanförnu en einnig margt vitlaust.“
„Staðan sem liðið er í núna er svipuð því þegar ég tók við. Fallsæti á leið inn í nýja árið. Á einhvern stórkostlegan hátt tókst okkur að snúa gengi liðsins við og bjarga okkur frá falli á lokadegi tímabilsins. Þetta var einhverskonar kraftaverk."
„Ég sagði öllum hjá liðinu að við yrðum að trúa á verkefnið, að við gætum haldið okkur uppi. Ef þú ferð niður þá ertu í vondum málum. Fjárhagurinn fer allur í vitleysu og þú kemst ekki upp nema hafa fjársterkan aðila á bak við félagið.“
Eggert átti hlut í félaginu en stærstan hluta átti Björgólfur Guðmundsson. Þegar íslenska bankakreppan skall á varð sífellt erfiðara og erfiðara að stjórna West Ham þar til þeir seldu Gold og Sullivan félagið árið 2010.
„Ég hef verið viðloðinn fótbolta allt mitt líf og þegar Björgólfur vinur minn bað mig um að vera með þá ákvað ég að slá til. Frá mínum sjónarhóli þá snerist þetta alltaf um fótboltann. Sumir eigendur sem koma inn núna sjá viðskiptatækifæri en ég leit á þetta sem knattspyrnutækifæri."
„Ég held það skipti samt ekki máli hvers lenskur eigandinn er svo lengi sem hann ber hagsmuni félagsins og fótboltans fyrir brjósti."
En sér Eggert eftir einhverju sem hann gerði hjá West Ham? „Ef ég hefði átt félagið einn, átt 100% hlut, þá hefði ég gert margt öðruvísi en þá hefði ég sennilega ekki gert þetta yfirhöfuð!"
Nú er bara að bíða og sjá hvort Sullivan, Gold og Allardyce tekst að bjarga sér frá falli líkt og Eggerti, Björgólfi og Alan Curbishley gerðu.
Athugasemdir