Fimm milljóna punda verðmiði - Robinson í stað Robertson - Chelsea og Villa skoða leikmann PSG
   sun 25. janúar 2026 20:09
Ívan Guðjón Baldursson
Cunha: Hópurinn orðinn samheldnari
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Brasilíski sóknarmaðurinn Matheus Cunha kom inn af bekknum í frábærum sigri Manchester United gegn Arsenal, toppliði ensku úrvalsdeildarinnar, í dag.

Cunha átti eftir að reynast afar mikilvægur og skoraði hann sigurmark leiksins með laglegu skoti utan vítateigs.

„Mér fannst við sýna persónuleika og mikla samheldni. Við vissum að við værum að mæta besta liði í heimi og við vorum tilbúnir í slaginn. Við erum United og við verðum að fara í hvern einasta leik til að sigra," sagði Cunha í viðtali eftir lokaflautið á Emirates, en þetta var fyrsti sigur Man Utd á leikvanginum í átta ár.

Hann talaði um að hópurinn sé orðinn samheldnari undir stjórn Michael Carrick heldur en hann var undir leiðsögn Rúben Amorim.

„Þjálfarinn þekkir þetta félag mjög vel, hann spilaði hérna í svo mörg ár og veit hvernig tilfinningin er. Hann veit hvað stuðningsmennirnir vilja sjá og hann er að leggja mikla áherslu á samheldni í hópnum. Þetta erum við á móti heiminum, hann vill að við skiljum það. Hópurinn er orðinn samheldnari fyrir vikið."

Man Utd er búið að vinna tvo leiki af tveimur undir stjórn Carrick, gegn toppliðum deildarinnar Manchester City og Arsenal.
Athugasemdir
banner
banner
banner