Ólíklegt að Liverpool selji Robertson - City með augu á Trent Alexander-Arnold - Bobb frá City til Fulham
banner
   mán 26. janúar 2026 08:50
Fótbolti.net
Heimild: BA | mbl 
Sævar Atli átti að fara í eina aðgerð en endaði í þremur - Kláraði Netflix
Sævar Atli í landsleik á Laugardalsvelli.
Sævar Atli í landsleik á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Sævar Atli Magnússon, leikmaður Brann og íslenska landsliðsins, hefur ekki spilað síðan hann meiddist í jafnteflisleiknum gegn Frakklandi á Laugardalsvelli í október.

Í viðtali við Bergensavisen segir hann frá þeim hrakförum sem hann lenti í eftir að hafa gengist undir aðgerð. Hann fékk sýkingu í hnéð þegar hann fór undir hnífinn og aðgerðirnar urðu á endanum þrjár.

Hann var tíu daga á sjúkrahúsi og var svo rúmliggjandi í mánuð.

Léttist um 5-6 kíló
„Ég léttist um 5–6 kíló því ég hafði enga matarlyst. Ég held ég sé búinn að horfa á allar þáttaraðir sem eru á Netflix, ég lá bara í sófanum," segir Sævar í viðtalinu, sem mbl.is vitnar í.

Sævar hafði leikið virkilega vel eftir að hafa komið til Brann frá Lyngby á síðasta ári. Liðið er í baráttu um að komast áfram í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar og Breiðhyltingurinn hefur misst af stórum leikjum.

„Þetta hefur verið mjög erfitt, miklu erfiðara en ég hélt að það yrði. Ég gat orðið reiður og vonsvikinn þegar okkur gekk ekki vel í leik, en núna er ég orðinn vanari þessu og er orðinn betri í að hvetja," segir Sævar sem setur stefnuna á að vera orðinn klár um miðjan mars þega nýtt tímabil hefst í norsku úrvalsdeildinni.
Athugasemdir
banner