Tómas Bent Magnússon og félagar í toppliði Hearts í Skotlandi björguðu stigi gegn Skotlandsmeisturum Celtic er liðin áttust við í Edinborg í dag.
Eyjamaðurinn var á miðsvæði Hearts í leiknum. Celtic komst yfir en Hearts jafnaði snemma í síðari hálfleiknum áður en Yang Hyun-Jun kom Celtic aftur yfir.
Tómas sá gula spjaldið á 65. mínútu og var tekinn af velli nokkrum mínútum síðar.
Auston Trusty, leikmaður Celtic, sá rauða spjaldið á 77. mínútu og um það bil tíu mínútum síðar náðu Hearts-menn í mikilvægt jöfnunarmark.
Hearts er áfram á toppnum með 51 stig, sex stigum meira en Celtic sem er í þriðja sæti. Rangers er síðan í öðru sæti með 47 stig eftir að hafa unnið Dundee, 1-0.
Hörður Björgvin Magnússon lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Levadiakos sem náði í sterkt stig í 2-2 jafntefli gegn Aris í Thessaloniki í grísku úrvalsdeildinni.
Levadiakos lenti tvisvar undir í leiknum en kom tvisvar til baka og kom seinna jöfnunarmarkið seint í uppbótartíma er kýpverski landsliðsmaðurinn Ioannis Kosti stakk sér á milli tveggja varnarmanna, sólaði markvörðinn og lagði boltann í netið.
Aris hefur aðeins tapað einum leik á heimavelli sínum á tímabilinu og virða leikmenn Levadiakos eflaust stigið.
Góð úrslit fyrir Levadiakos sem er áfram í 4. sæti með 35 stig, sem gefur þáttökurétt í Evrópu, en Panathinaikos, fyrrum félag Harðar, er tíu stigum á eftir í 5. sætinu.
Brynjólfur Andersen Willumsson kom inn af bekknum hjá Groningen sem tapaði fyrir Fortuna Sittard, 2-1, í hollensku úrvalsdeildinni.
Groningen er í 7. sæti með 31 stig.
Athugasemdir




