Spænski miðilinn AS heldur því fram að Englandsmeistarar Liverpool hafi sett sig í samband við spænska þjálfarann Xabi Alonso til að athuga hvort hann hafi áhuga á að snúa aftur á Anfield.
Alonso var látinn fara frá Real Madrid á dögunum eftir það sem Madrídingar kalla slakt gengi.
Þrátt fyrir 70 prósent sigurhlutfall er sagt að leikmönnum hafi ekki líkað við Alonso og hugmyndir hans. Það gekk erfiðlega fyrir hann að hafa hemil á stjörnum liðsins og fór það svo að hann var rekinn eftir 3-2 tap gegn Barcelona í Ofurbikar Spánar.
Síðan þá hefur hann verið orðaður við endurkomu til Liverpool, þar sem hann kom ferlinum sínum á flug sem leikmaður. Alonso lék þar frá 2004 til 2009 og komst tvisvar í úrslit Meistaradeildar Evrópu, en í fyrra skiptið vann Liverpool magnaðan sigur á AC Milan eftir að hafa lent 3-0 undir.
AS á Spáni segir að Liverpool hafi sett sig í samband við Alonso til að athuga hvort hann hafi áhuga á því að koma og fékk félagið jákvæð svör.
Starf Arne Slot er sagt hanga á bláþræði þrátt fyrir að hafa gert liðið að Englandsmeistara síðasta vor. Tímabilið hjá Liverpool hefur verið vonbrigði til þessa og Slot ekki fengið liðið til að tikka eins og á síðustu leiktíð.
Liverpool er þrátt fyrir það í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og er komið með annan fótinn í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu ásamt því að vera komið í 4. umferð enska bikarsins.
Athugasemdir



