| sun 25.jan 2026 08:30 Mynd: Heilsa |
|
Heilsu janúar: Er kreatín fæðubótarefnið sem allir ættu að taka?
Kreatín er eitt vinsælasta og mest rannsakaða fæðubótarefni í heimi. Margir tengja það við þungar lyftur, próteindrykki og strangt æfingaprógram, en raunveruleikinn er sá að kreatín er mun einfaldara og almennara efni en margir halda og mikilvægt fyrir fleiri en bara afreksíþróttafólk.
En hvað er kreatín?
Kreatín er efni sem líkaminn framleiðir sjálfur og fær einnig úr fæðu, einkum úr kjöti og fiski. Um 95% af kreatíni líkamans er geymt í vöðvum, þar sem það gegnir mikilvægu hlutverki í orkuframleiðslu.
Af hverju er kreatín svona vinsælt?
Ástæðan fyrir vinsældum kreatíns er einföld: það hefur verið rannsakað í áratugi og niðurstöðurnar eru mjög samhljóma, það virkar. Rannsóknir sýna að kreatín getur stuðlað að auknum styrk, bættri frammistöðu í endurteknum átökum og hraðar endurheimt eftir álag.
En er kreatín bara fyrir íþróttamenn?
Þetta er algeng mýta sem er sem betur fer að deyja út með bættu aðgengi fólks að rannsóknum. Þannig að stutta svarið er: Nei. Kreatín hentar vel fyrir fólk sem vill styðja við almenna líkamlega virkni.
Er kreatín öruggt?
Kreatín er eitt mest rannsakaða fæðubótarefni í heimi. Fjöldi klínískra rannsókna sýnir að það er öruggt fyrir heilbrigt fólk þegar það er tekið samkvæmt ráðleggingum. Kreatín er leyfilegt samkvæmt reglum Alþjóða lyfjaeftirlitsins (WADA) og er víða notað í íþróttaheiminum.
Engin töfralausn til
Kreatín er einfalt, vel rannsakað og náttúrulegt efni sem styður við orku og líkamlega frammistöðu. Það er ekki aðeins fyrir afreksíþróttamenn, heldur fyrir alla sem vilja styðja við virkni líkamans, hvort sem það er á æfingum, í daglegu lífi eða viðhalda heilbrigði á efri árum. Það er þó fínt að minna okkur á að það eru engar töfralausnir. Kreatín virkar best sem hluti af heilbrigðum lífsstíl: reglulegri hreyfingu, hollu mataræði, svefni og andlegu jafnvægi.



