Fimm milljóna punda verðmiði - Robinson í stað Robertson - Chelsea og Villa skoða leikmann PSG
banner
   sun 25. janúar 2026 21:07
Ívan Guðjón Baldursson
Carrick: Þetta snýst mikið um sjálfstraust
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Michael Carrick bráðabirgðaþjálfari Manchester United var kampakátur eftir lokaflautið á Emirates leikvanginum í dag.

Rauðu djöflarnir unnu sinn fyrsta leik á Emirates í átta ár þegar þeir höfðu betur gegn toppliði ensku úrvalsdeildarinnar, Arsenal. Lokatölur urðu 2-3 eftir mögnuð mörk frá Patrick Dorgu og Matheus Cunha í síðari hálfleik, en Bryan Mbeumo skoraði fyrsta mark Man Utd eftir slæm mistök í varnarlínu Arsenal í fyrri hálfleik.

„Ég er svo ótrúlega stoltur af hugarfarinu sem strákarnir sýndu í dag, þeir brugðust ótrúlega vel við aðstæðum. Þetta var ekki fullkomin frammistaða en það er margt jákvætt sem við sáum í dag sem við getum byggt á. Strákarnir hafa sýnt frábært hugarfar og það er augljóst að þeir þrá að ná árangri með liðinu. Við vorum að spila gegn svakalega sterkum andstæðingum," sagði Carrick.

„Bæði mörkin okkar í seinni hálfleik voru ótrúlega flott. Strákarnir eiga hrós skilið fyrir að missa ekki trúna gegn mjög erfiðum andstæðingum. Ég hafði allan tímann trú á að strákarnir gætu unnið þennan leik. Auðvitað vorum við ekki að fara að koma hingað og stýra leiknum, við erum bara nýbyrjaðir að vinna saman."

Leikmenn Man Utd virðast ótrúlega ánægðir með Carrick og hrósuðu þeir honum í viðtölum sínum að leikslokum. Hvað gerði Carrick til að snúa þessu við á svona skömmum tíma?

„Starfsteymið og leikmennirnir sjálfir eiga stórt hrós skilið. Þeir hafa tekið mér ótrúlega vel og fylgja öllu sem ég segi. Strákarnir hérna eru virkilega að fylgja öllu sem ég segi til hins ýtrasta og það er að skila sér. Leikmönnum líður vel og það sést líka á leikmönnunum sem koma inn af bekknum og hafa áhrif á leikina.

„Þetta snýst mjög mikið um sjálfstraust og ég held að leikmennirnir sjái á mér hversu mikla trú ég hef á þeim. Það er hægt að segja og gera ýmislegt en það sem skiptir mestu máli er tilfinningin á bakvið orðin og gjörðirnar. Sjálfstraust hefur smitandi áhrif."


Carrick hrósaði að lokum stuðningsmönnum Man Utd en börnin hans voru meðal þeirra.

„Það var falleg stund að fagna með stuðningsmönnum eftir lokaflautið. Börnin mín, sem geta ekki talist börn lengur, voru þar á meðal og það gerir þessa stund ennþá tilfinningaþrungnari fyrir mig. Þetta er það sem fótbolti snýst um, að gefa stuðningsmönnum tilefni til að gleðjast og fagna."
Athugasemdir