Fimm milljóna punda verðmiði - Robinson í stað Robertson - Chelsea og Villa skoða leikmann PSG
   sun 25. janúar 2026 18:28
Ívan Guðjón Baldursson
England: Magnaður sigur Man Utd á Emirates
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Arsenal 2 - 3 Manchester Utd
1-0 Lisandro Martinez ('29 , sjálfsmark)
1-1 Bryan Mbeumo ('37 )
1-2 Patrick Dorgu ('51 )
2-2 Mikel Merino ('84 )
2-3 Matheus Cunha ('87 )

Arsenal tók á móti Manchester United í klassískum slag á Emirates leikvanginum og úr varð ótrúlegur fótboltaleikur.

Heimamenn tóku forystuna í fyrri hálfleik þegar Lisandro Martínez tapaði líkamlegu baráttunni við Jurriën Timber og skoraði sjálfsmark eftir að Martin Ödegaard skaut boltanum í átt að marki.

Bryan Mbeumo jafnaði metin eftir skelfileg mistök Martín Zubimendi sem gaf boltann beint á Mbeumo sem skoraði úr dauðafæri.

Staðan var jöfn eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik og hófst seinni hálfleikurinn með látum þegar Patrick Dorgu skoraði algjört draumamark. Dorgu og Bruno Fernandes náðu einhvern veginn að spila sig í gegnum miðjuna hjá Arsenal og endaði boltinn skoppandi fyrir framan Dorgu, sem lét vaða úr erfiðu færi.

Daninn smellhitti boltann og skoraði stórglæsilegt mark til að taka forystuna.

Arsenal þrýsti á Rauðu djöflana eftir þetta en átti í miklum erfiðleikum með að skapa sér færi. Mikel Merino náði þó að jafna metin eftir hornspyrnu á lokakaflanum þar sem honum rétt svo tókst að koma boltanum yfir marklínuna. Man Utd hreinsaði boltann en dómarinn skoðaði úrið sitt og dæmdi mark.

Það liðu varla þrjár mínútur þar til næsta mark leit dagsins í ljós. Í þetta sinn var komið að Matheus Cunha sem átti frábæran leik eftir innkomu af bekknum í síðari hálfleik.

Cunha fékk boltann á miðjunni og var með mikið pláss svo hann lét vaða af um 30 metra færi. Skotið reyndist frábært þar sem Brassinn lagði boltann fast í bláhornið þar sem David Raya náði ekki til hans.

Man Utd náði þannig forystunni á nýjan leik og gerði mjög vel að halda henni til leiksloka. Arsenal skapaði ekki raunverulega hættu og urðu lokatölur 2-3.

Þetta tap er mikill skellur fyrir topplið Arsenal sem er núna aðeins með fjögurra stiga forystu í ensku úrvalsdeildinni.

Sigurinn er hins vegar gríðarlega dýrmætur fyrir Rauðu djöflana sem klifra upp í meistaradeildarsæti. Þar sitja þeir með 38 stig eftir 23 umferðir.

Þetta eru merkileg úrslit. Arsenal hafði hingað til ekki tapað leik á heimavelli á tímabilinu eða fengið meira en eitt mark á sig.

Þetta er fyrsti sigur Man Utd á Emirates í átta ár.
Athugasemdir
banner