Ísold Hallfríðar Þórisdóttir er búin að skipta alfarið yfir til Hauka eftir að hafa leikið með liðinu á láni frá Val í fyrra.
Ísold er fædd árið 2008 og stóð sig vel á miðjunni hjá Haukum í fyrra enda er hún bráðefnileg fótboltastelpa.
Hún er uppalin hjá Val og er með fjóra leiki að baki í heildina fyrir U17 og U18 landslið Íslands.
Haukar enduðu í neðri hluta Lengjudeildarinnar í fyrra með 22 stig úr 18 umferðum, tíu stigum fyrir ofan fallsvæðið.
„Hún er í miklum metum hjá okkur eftir að hafa staðið sig frábærlega á síðasta tímabili og ekki síður fyrir það hvernig hún er sem karakter og liðsfélagi. Ísold er fjölhæfur leikmaður með marga áhugaverða eiginleika sem maður sér ekki hjá mörgum leikmönnum og hún á sannarlega framtíðina fyrir sér. Hún kemur til með að styrkja liðið enn frekar í baráttunni um að komast upp í efstu deild," segir Hörður Bjarnar Hallmarsson þjálfari Hauka.
Athugasemdir





