Miðjumaðurinn Alex Þór Hauksson er genginn í raðir Stjörnunnar að nýju. Félagið greindi frá þessu á samfélagsmiðlum sínum áðan.
Alex var sterklega orðaður við ÍA en er nú kominn aftur í Garðabæinn.
Alex var sterklega orðaður við ÍA en er nú kominn aftur í Garðabæinn.
Alex gekk í raðir KR frá sænska liðinu Öster fyrir ári síðan en náði ekki að finna sig í Vesturbænum og fékk talsverða gagnrýni á síðasta tímabili. Hann lék 24 leiki með KR í Bestu deildinni í fyrra.
Alex er 25 ára gamall og lék með Stjörnunni áður en hann fór til Svíþjóðar. Hann lék með meistaraflokki félagsins 2017-2020 og varð bikarmeistari með liðinu.
Alex kemur heim reynslunni ríkari
„Alex er fyrsti leikmaðurinn sem ég persónulega tók þátt í að selja út þegar ég tók við, og við höfum haldið góðu sambandi alla tíð, enda er Alex fyrst og síðast Stjörnumaður. Eins og við sögðum þegar við tilkynntum sölu á Alex í desember 2020 þá myndi hann snúa tilbaka einn góðan veðurdag – og sá tími er kominn. Það er ljóst að Alex kemur reynslunni ríkari eftir rúm fjögur ár í burtu, og í leiðinni höfum við byggt mjög öflugan grunn og horfum spennt til framtíðar í Garðabænum,” segir Helgi Hrannarr, formaður meistaraflokksráðs Stjörnunnar.
Hér hefur mér liðið best
„Það er gríðarlega gaman að vera kominn heim. Hér hefur mér liðið best, og ég er ákaflega stoltur af því að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum til að gera Stjörnuna að því sem menn lögðu af stað með. Það er ótrúlega margt búið að breytast, og það verður frábært fyrir mig að fá að taka þátt í því. Ég hef eins og aðrir tekið eftir þeim breytingum sem hafa átt sér stað og fylgst með af aðdáun yfir þeirri gleði og hugrekki sem einkennir liðið. Það er einu orði sagt frábært að vera kominn heim," segir Alex Þór Hauksson.
Stjarnan hafnaði í fjórða sæti Bestu deildarinnar á síðasta tímabili.
Athugasemdir