Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
banner
   þri 09. ágúst 2022 16:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stefán Árni var of lengi í bænum - Getur snúið aftur í næsta leik
Stefán Árni Geirsson í leik með KR.
Stefán Árni Geirsson í leik með KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefán Árni Geirsson, leikmaður KR, var í agabanni þegar liðið vann 4-0 sigur á ÍBV í Bestu deildinni um síðustu helgi.

Frá þessu sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, í samtali við Fótbolta.net eftir leikinn.

Stefán Árni, sem er 21 árs, er ekki búinn að finna mikinn takt í sínum leik í sumar. Meiðsli hafa spilað þar inn í og hefur hann misst af nokkrum leikjum sökum þess.

Rúnar vildi ekki segja til um það hvað Stefán hafði gert af sér og vildi leikmaðurinn sjálfur lítið sem ekkert tjá sig um málið þegar fréttamaður hafði samband við hann í dag. Núna er bara verið að horfa fram veginn.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net þá var hann ekki í hóp vegna þess að hann var of lengi í miðbæ Reykjavíkur daginn fyrir þennan tiltekna leik á móti ÍBV.

Næsti leikur KR er gegn Keflavík á mánudag. Rúnar segir í samtali við Fótbolta.net í dag að það sé búið að leysa málið.

„Já, hann á jafnmikinn möguleika á því eins og allir hinir," sagði Rúnar þegar hann var spurður út í það hvort Stefán Árni gæti verið í hóp í næsta leik gegn Keflvíkingum. „Það var frí í dag og svo byrjum við að æfa aftur á fullu á morgun. Við komum okkur aftur af stað á morgun og þá byrja allir á núllpunkti."

„Þetta er bara búið núna. Þetta er ekkert sem mun hanga yfir okkur eða honum. Þetta er hluti af ferlinu, þroskanum og öllu því sem gerist í kringum fótboltann. Við tökum á þessu innanbúðar og svo er þetta búið. Við höldum áfram," sagði þjálfari KR-inga.

Stefán Árni, sem er skemmtilegur karakter, er með gríðarlega hæfileika og hefur sýnt það á köflum þegar hann hefur spilað með KR. Hann hefur alla burði til þess að fara langt á sínum ferli og það er vonandi að honum takist það í framhaldinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner