Liverpool reynir við Pedro næsta sumar - PSG til í að opna veskið fyrir Isak - Nico Williams eftirsóttur
   fim 09. nóvember 2023 16:06
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pétur ætlar vestur aftur - Tveir úr Fylki liggja undir feldi
Pétur Bjarnason í leik með Fylki í sumar.
Pétur Bjarnason í leik með Fylki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis.
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Gauti Jónsson og Ólafur Karl Finsen.
Arnór Gauti Jónsson og Ólafur Karl Finsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elís Rafn Björnsson.
Elís Rafn Björnsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Já, það eru einhverjar breytingar. Er það ekki bara eðlilegt?" segir Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Fylkir hafnaði í áttunda sæti Bestu deildarinnar í sumar og gerði vel, en eins og staðan er núna þá verða nokkrar breytingar á leikmannahópnum. Pétur Bjarnason er líklega á leið í Vestra og þá liggja Elís Rafn Björnsson og Ólafur Karl Finsen undir feldi varðandi framtíð sína. Þeir eru mögulega að hætta í fótbolta.

„Pétur er pottþétt að fara vestur. Óli Kalli og Elís, það er eðlilegasta mál að þeir ætli aðeins að hugsa hvað þeir ætli að gera. En það er ekkert útilokað með þá í sjálfu sér. Annars er ekkert mikið meira að gerast," sagði Rúnar.

Mjög svekkjandi að missa hann
Pétur er sóknarmaður fæddur 1997 sem kom til Fylkis frá Vestra fyrir tímabilið sem var að klárast. Hann spilaði 25 leiki í Bestu deildinni í sumar og skoraði sex mörk.

„Pétur hefur sagt okkur það að hann vilji flytja vestur og þá er lítið sem við getum gert í því. Það er mjög svekkjandi að missa hann, það er eins og það er. Hann var í okkar framtíðarplönum frá því við fengum hann. En það kemur bara maður í manns stað. Þetta er fínn drengur sem kom vel inn í þetta hjá okkur. Auðvitað er synd að missa hann," sagði Rúnar er Ólafur Karl og Elís eru báðir reynsluboltar í mjög ungu liði.

„Þeir eru að skoða hvort þeir ætli að hætta. Það tekur mikla orku frá mönnum að vera í fótbolta á efsta stigi á Íslandi, að vinna með því og svona. Þeir verða líklega ekki með okkur, en það getur svo sem breyst."

Arnór Gauti Jónsson og Unnar Steinn Ingvarsson eru að verða samningslausir en búist er við því að þeir framlengi við félagið.

„Það er fín staða. Unnar er líklega að klára samning við okkur á næstu dögum og Gauti líka. Það er bara allt á fínni leið. Annars eru flestallir á samning og slíkt," sagði Rúnar.

Voru með yngsta liðið í deildinni
Fylkir hefur krækt í einn leikmann til þessa en það er Guðmundur Tyrfingsson, ungur og efnilegur sóknarmaður sem kemur frá Selfossi.

„Það er mjög gott. Hann er öflugur strákur, fljótur, áræðinn og hentar okkar leikstíl. Við erum með marga flotta stráka í þessum stöðum. Við erum með gaura sem eru duglegir í þessum stöðum. Við erum með aukna breidd núna og það er eitthvað sem við þurfum á að halda," segir Rúnar.

Fylkir byggði liðið sitt mikið upp í sumar á ungum og efnilegum heimamönnum, og það er áfram stefnan að gera það. Fylkir var með yngsta liðið í Bestu deildinni í sumar.

„Við þurfum að styrkja aðeins í kringum vörnina og svona. Við erum með flotta stráka þarna sem eru ungir og eru að stíga sín fyrstu skref. Þeir eru að fá tækifæri að spila. Það eru líka fullt af uppöldum leikmönnum sem eru að banka dyrnar, flottir strákar sem eru að gera tilkall í að fá að spila. Það er bara spennandi."

„Við viljum helst ekki sækja of mikið af mönnum til að taka pláss af þessum leikmönnum. Við þurfum að fá réttar styrkingar. Það er mjög gaman að taka þátt í þessu, spennandi framtíðarsýn hjá félaginu. Það hafa margir leikmenn í félaginu flott 'potential' í þessari deild. Þú þarft að fá tækifæri til að þróast og þroskast í þínum leik," segir Rúnar.

Mjög ánægður hjá Fylki
Eins og áður kemur fram, þá hafnaði Fylkir í áttunda sæti Bestu deildarinnar í sumar. Rúnar er ánægður með það hvernig tímabilið spilaðist.

„Heilt yfir er ég mjög ánægður með tímabilið. Það var mikil reynsla sem leikmenn fengu og liðið allt. Þetta var mikið til sama liðið sem spilaði í Lengjudeildinni 2021 og fær að prófa sig áfram í Bestu deildinni. Þetta er yngsta liðið í deildinni og engir erlendir leikmenn. Við gætum ekki verið ánægðari með þróun liðsins. Við erum hrikalega ánægðir hvernig þetta er að þróast hjá okkur. Við verðum að halda áfram, að æfa vel og þróa okkar leik. Við verðum að reyna að verða betri í því sem við erum að gera," segir Rúnar en það voru einhverjar sögusagnir um það eftir tímabilið að hann yrði ekki áfram þjálfari liðsins. Hann segir hins vegar að það hafi aldrei komið til tals að hann myndi hætta.

„Það hefur ekki komið til tals. Ég gerði þriggja ára samning og ætla að klára hann. Ég er mjög ánægður hjá Fylki. Þetta er gott félag og hér er vel staðið að öllum málum. Það er gott teymi í kringum mig, góð stjórn og góðir leikmenn. Markmiðið mitt er að halda áfram að þróa leik liðsins og gera félagið betra," sagði þessi öflugi þjálfari að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner