Dortmund vill Rashford - City að bjóða í Cambiaso - West Ham og Tottenham hafa áhuga á Ansu Fati
   mán 09. desember 2024 18:30
Ívan Guðjón Baldursson
Carragher varar Postecoglou við: Þarf að klæða sig í regnkápu
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Fótboltasérfræðingurinn Jamie Carragher horfði á Tottenham tapa 4-2 gegn Chelsea um helgina eftir að hafa komist í tveggja marka forystu snemma leiks.

Postecoglou sagði eftir leikinn að hann væri heilt yfir ánægður með frammistöðu lærisveina sinna og að á öðrum degi hefðu hans menn unnið þessa viðureign. Postecoglou sér enga ástæðu til að breyta leikstílnum sínum, þó að Tottenham sé óvænt í neðri hluta ensku úrvalsdeildarinnar.

„Ange talaði eftir leik um að hans menn hafi spilað mjög vel. Ég get ekki ímyndað mér að neinn þjálfari sem þjálfaði mig hjá Liverpool myndi segja svona eftir að hafa fengið fjögur mörk á sig. Það er ekki möguleiki," sagði Carragher eftir leikslok.

„Til að byrja með voru stuðningsmenn ótrúlega ánægðir, þeir sungu lofsöngva um þjálfarann sinn og töluðu um að nú væri 'gamla sóknarþenkjandi Tottenham' komið aftur. En staðreyndin er sú að ef þú ætlar að spila svona ótrúlega sóknarþenkjandi fótbolta þá muntu ekki vinna neitt eða berjast um neitt.

„Þú nærð kannski flottum úrslitum eins og gerðist gegn Manchester City, en þú átt líka eftir að lenda í svona stöðum þar sem þú nærð tveggja marka forystu en tapar henni svo niður."


Tottenham situr óvænt í ellefta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, með 20 stig eftir 15 umferðir en markatöluna 31-19.

„Ég hef aldrei skilið þjálfara sem eru staðráðnir í að spila alltaf með sama leikstíl og eru ekki tilbúnir til að bregða sér frá sínum leikstíl. Ég held að þetta hafi byrjað með Pep Guardiola hjá Barcelona, en hann var þá að þjálfa besta fótboltalið sem ég hef nokkurn tímann séð og gat þess vegna unnið svona mikið. Hjá Manchester City þurfti Pep að breyta liðinu og leikstílnum á milli tímabila, hann setti miðverði í bakverði og breytti öðrum hlutum.

„Í fótbolta þarftu að aðlagast aðstæðum hverju sinni. Þú vilt kannski alltaf fara út úr húsi í bol og stuttbuxum en ef það er vindur og rigning þá þarftu að klæða þig í regnkápu. Ef Ange byrjar ekki að klæða sig í regnkápu þá verður hann ekki lengur í þessu starfi þegar næsta tímabil fer af stað."

Athugasemdir
banner
banner
banner