Enzo Maresca þjálfari Chelsea svaraði spurningum eftir að hans menn voru slegnir úr leik í enska bikarnum um helgina.
Brighton hafði betur, 2-1, en liðin mætast aftur á sama velli um næstu helgi í ensku úrvalsdeildinni.
„Það er synd að vera dottnir úr leik í FA bikarnum en við verðum að taka það jákvæða úr þessu. Núna getum við einbeitt okkur að ensku úrvalsdeildinni og Sambandsdeildinni. Vonandi getum við gert góða hluti þar," sagði Maresca meðal annars eftir tapið.
Chelsea var meðal annars án Reece James, Joao Félix og Nicolas Jackson í tapinu gegn Brighton. James var hvíldur, Félix var lánaður út til Milan og Jackson meiddist á gluggadegi.
„Við misstum tvo framherja í meiðsli á lokadegi janúargluggans, það er mjög erfitt að takast á við það. Sem betur fer mun Nico Jackson snúa aftur bráðlega, við söknum hans. Við erum ánægðir að Joao Félix sé hamingjusamur hjá Milan.
„Reece er ekki meiddur, við vorum búnir að ákveða fyrir leikinn að hann yrði hvíldur. Við viljum ekki missa hann aftur í meiðsli."
Maresca var einnig spurður út í ekvadorska miðjumanninn Moisés Caicedo sem var keyptur til Chelsea fyrir rúmlega 100 milljónir punda sumarið 2023.
„Moisés Caicedo er fullkominn leikmaður fyrir hvaða þjálfara sem er. Hann er ótrúlega duglegur og er stöðugt að bæta sig. Hann er með frábæran leikskilning og getur spilað mismunandi stöður. Hann er góður náungi, hann er hógvær og leggur mikla vinnu á sig."
Athugasemdir