Liverpool og Wolves eru komin áfram í 4. umferð enska bikarsins eftir góða sigra í dag.
Liverpool vann öruggan 4-0 sigur á D-deildarliði Accrington Stanley á Anfield.
Arne Slot leyfði sér að gera nokkrar breytingar á liðinu og fékk hinn 16 ára gamli Rio Ngumoha að spila sinn fyrsta leik með aðalliðinu og varð um leið yngsti leikmaðurinn í sögu félagsins til að gera það.
Vængmaðurinn sýndi skemmtilega takta í leiknum og greinilega mikið í hann spunnið.
Diogo Jota skoraði fyrsta mark Liverpool eftir góða sendingu frá Darwin Nunez á 29. mínútu og bætti þá Trent Alexander-Arnold, sem var með fyrirliðabandið í leiknum, við öðru gullfallegu marki með skoti fyrir utan teig og efst í samskeytin vinstra megin.
Hinn 18 ára gamli Jayden Danns kom inn af bekknum þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir og skoraði aðeins nokkrum mínútum síðar sem var þriðja mark hans fyrir félagið.
Ítalski vængmaðurinn Federico Chiesa, sem hefur átt erfitt uppdráttar frá því hann kom frá Juventus síðasta sumar, tókst að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið undir lokin með fínasta skoti fyrir utan teig, meðfram grasinu og í vinstra hornið.
Liverpool komið örugglega áfram og sömuleiðis Wolves sem vann 2-1 sigur á Bristol City. Rayan Ait-Nouri og Rodrigo Gomes skoruðu fyrir Wolves í fyrri hálfleiknum en Bristol tókst að gera þetta að spennuleik með því að minnka muninn undir lok hálfleiksins.
Úlfarnir héldu út og verða í pottinum þegar dregið verður í 4. umferð bikarsins.
Íslendingalið Birmingham er komið áfram eftir að hafa unnið 2-1 sigur á Lincoln. Alfons Sampsted var í byrjunarliði Birmingham en Willum Þór Willumsson kom inn af bekknum í síðari hálfleiknum.
Arnór Sigurðsson var ekki með Blackburn Rovers sem vann nauman 1-0 sigur á Middlesbrough.
Birmingham 2 - 1 Lincoln City
1-0 Ayumu Yokoyama ('1 )
2-0 Lyndon Dykes ('79 )
2-1 Jovon Makama ('90 )
Bristol City 1 - 2 Wolves
0-1 Rayan Ait Nouri ('10 )
0-2 Rodrigo Gomes ('21 )
1-2 Scott Twine ('45 )
Middlesbrough 0 - 1 Blackburn
0-1 Andreas Weimann ('70 )
Liverpool 4 - 0 Accrington Stanley
1-0 Diogo Jota ('29 )
2-0 Trent Alexander-Arnold ('45 )
3-0 Jayden Danns ('76 )
4-0 Federico Chiesa ('90 )
Athugasemdir