?brahim Hatipoplu, varaforseti Galatsaray í Tyrklandi, segist halda í vonina um að nígeríski framherjinn Victor Osimhen verði áfram hjá félaginu á næstu leiktíð.
Osimhen varð tyrkneskur deildarmeistari með Galatasaray og átti þar mjög stóran þátt.
Framherjinn er á láni frá Napoli en hafði ekki úr mörgu að velja þar sem ítalska félagið hafði staðfest að hann yrði ekki valinn í leikmannahópinn fyrir tímabilið.
Nígeríumaðurinn gerði því lánssamning út tímabilið og hefur verið þeirra markahæsti maður með 21 mark í deildinni. Hann fagnaði titlinum um helgina og greindi þar frá því að bráðlega verði tekin ákvörðun um framtíð hans, en varaforseti félagsins heldur í vonina um að hann verði áfram.
„Orð hans þýða ekki endilega að hann sé á förum. Hann sagði að ef það kæmi upp og í versta falli að hann færi þá myndi Galatasaray ávallt eiga stað í hjarta hans. Osimhen sagðist ekki vera á förum. Við viljum halda honum áfram hjá okkur,“ sagði Hatipoplu.
Osimhen hefur verið orðaður við stærri félög á borð við Manchester United, Paris Saint-Germain og Chelsea. Það kæmi alla vega verulega á óvart ef hann verður áfram í Tyrklandi miðað við áhugann á honum.
Athugasemdir