
„Þetta var ekki eins slæmt og við héldum í byrjun, þetta er alveg jákvætt þannig séð. Það þarf samt að passa upp á hann og við metum stöðuna dag eftir dag. Þetta er ekki slæm tognun eins og við bjuggumst við," segir Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, um meiðsli Valdimars Þórs Ingimundarsonar sem fór snemma af velli gegn KA á sunnudag vegna meiðsla.
Valdimar hafði byrjað leikinn og Íslandsmótið mjög vel en fann fyrir einhverju í lærinu og fór af velli eftir annað markið sitt. Sölvi segir að annað hvort hafi Valdimar alveg sloppið við tognun, eða þá að hún hafi verið mjög væg.
Valdimar hafði byrjað leikinn og Íslandsmótið mjög vel en fann fyrir einhverju í lærinu og fór af velli eftir annað markið sitt. Sölvi segir að annað hvort hafi Valdimar alveg sloppið við tognun, eða þá að hún hafi verið mjög væg.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 4 - 0 KA
„Hann mun missa af ÍBV leiknum, en við erum að horfa í möguleikann á því að hann geti spilað gegn Aftureldingu eftir viku."
Þurfa að bíta á jaxlinn
Tarik Ibrahimagic virtist snúa sig á ökkla í leiknum gegn KA. Hvernig er staðan á honum?
„Tarik er bara flottur, það þarf bara að teipa ökklann og bíta á jaxlinn. Menn þurfa dálítið að gera það núna eins á meðan meiðslin eru eins og þau eru. En sem betur fer eru þetta allt saman smávægileg meiðsli hjá öllum (nema Aroni Elís Þrándarsyni) og við búumst við mönnum til baka á næstu dögum."
Vilja ekki taka áhættur með leikmenn
Færeyingurinn öflugi, Gunnar Vanthamar, missti af leiknum gegn KA vegna stífleika og Sölvi segir að hann sé að verða klár, en óvíst sé hvort hann nái leiknum á morgun gegn ÍBV.
„Hann fann fyrir stífleika á æfingu og við vildum ekki taka áhættur með það. Það er algjör óþarfi að taka áhættur með þetta þar sem við erum með leikmenn sem geta leyst þessar stöður. Svona snemma inn í tímabilinu viljum við ekki taka áhættur með leikmenn, og sérstaklega í ljósi þess að það eru aðrir hafsentar sem eru að glíma við meiðsli. Við gátum leyst þetta svona, Matti (Matthías Vilhjálmsson) getur leyst allan andskotann, getur leyst allar þessar stöður og við erum bara mjög sáttir með að hafa ekki þurft að taka neina sénsa með Gunnar," segir Sölvi en Matthías leysti stöðu miðvarðar í leiknum gegn KA. Hann hefur meira spilað framar á vellinum á sínum ferli, en leysti sama hlutverk í bikarúrslitaleiknum 2023, einmitt gegn KA.
„Það eru spurningamerki með Gunnar og Oliver (Ekroth) varðandi leikinn á morgun. NIkolaj Hansen er byrjaður að æfa með okkur og ætti að vera klár í mínútur. Róbert Orri (Þorkelsson) er á svipuðum stað og Oliver og Gunnar, við þurfum að meta þá þrjá í dag hversu langt við getum farið án þess að taka áhættur," segir Sölvi.
Leikurinn gegn ÍBV fer fram á Þórsvelli í Vestmannaeyjum á morgun, á skírdegi. Leikurinn hefst klukkan 16:00 og verður í beinni útsendingu á RÚV og í textalýsingu hér á Fótbolta.net.
Athugasemdir