Fundað um Pochettino - Man City tryggir sér undrabarn - Arsenal ætlar að styrkja hópinn
   mið 18. júlí 2018 12:55
Elvar Geir Magnússon
Yrði skammarlegt að falla út gegn íslensku liði
Það yrði mikið áfall fyrir Rosenborg ef liðið kemst ekki áfram.
Það yrði mikið áfall fyrir Rosenborg ef liðið kemst ekki áfram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sparkspekingurinn Jesper Mathisen hjá TV2 í Noregi segir að viðvörunarbjöllur myndu hringja í norskum fótbolta ef Rosenborg fellur úr leik gegn Val í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Rosenborg og Valur mætast í dag klukkan 17:45 að íslenskum tíma en það kom Norðmönnum gríðarlega á óvart að Valur hafi unnið 1-0 sigur í fyrri leiknum.

„Það yrði skammarlegt og vandræðalegt ef Rosenborg fellur úr leik gegn Val. Það var vont að tapa á Íslandi en ef það vinnst ekki sannfærandi sigur heima er það áfall," segir Mathisen.

Hann hefur ekki verið hrifinn af spilamennsku Rosenborg á leiktíðinni en liðið er þó aðeins tveimur stigum frá toppi norsku deildarinnar.

„Rosenborgarliðið hefur ekki verið eins gott og við héldum fyrir tímabilið. Það hefur skort takt í liðið og sóknarleikurinn hefur ekki verið eins öflugur."

Þá segir Mathisen að svo erfitt sé fyrir lið frá norðurlöndum að komast í Meistaradeildina að raunhæfara markmið fyrir Rosenborg væri að komast í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Fótbolti.net er í Þrándheimi í samstarfi við Origo og leikurinn verður í beinni textalýsingu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner