Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 18. ágúst 2013 19:44
Elvar Geir Magnússon
Leikur Breiðabliks og KR flautaður af eftir óhugnalegt atvik
Leikmaður Blika fluttur á sjúkrahús
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Elfar Árni Aðalsteinsson.
Elfar Árni Aðalsteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elfar Árni Aðalsteinsson, leikmaður Breiðabliks, fékk slæmt höfuðhögg á fjórðu mínútu í leik gegn KR í kvöld og var fluttur burt í sjúkrabíl.

Leik var hætt og bæði lið gengu inn í búningsklefa. Rúmlega 25 mínútum síðar var tilkynnt að leikmenn treystu sér ekki til að halda áfram leik.

Atburðarásin í Kópavoginum var mjög óhugnaleg en meðan Elfar lá á grasinu var auglýst eftir lækni í stúkunni. Skömmu síðar komu tveir lögreglubílar á vettvang og eftir það tveir sjúkrabílar sem keyrðu inn á völlinn.

Þegar Elfar var borinn upp í sjúkrabílinn var tilkynnt að hann væri kominn með eðlilegan púls og væri allur að braggast. Áhorfendur risu á fætur og klöppuðu honum lof í lófa.

Bæði lið fóru til búningsklefa og dómarar og þjálfarar ræddu hvað næsta skref yrði. Í hátalarakerfinu var svo tilkynnt að leikmenn treystu sér ekki til að halda leik áfram og hann því flautaður af.

Ákveðið hefur verið að þegar þessi lið muni leika að nýju verði aðgangur ókeypis.

Ritstjórn Fótbolta.net sendir hlýja strauma til Elfars og aðstandenda hans. Vonandi fáum við að sjá hann aftur á fótboltavellinum sem allra fyrst.
Athugasemdir
banner
banner