Enski kantmaðurinn Noni Madueke er á leið til Chelsea frá hollenska félaginu PSV Eindhoven.
Madueke, sem er tvítugur, er uppalinn hjá bæði Crystal Palace og Tottenham, en hann ákvað að halda á vit ævintýranna og semja við PSV fyrir þremur árum.
Þar hefur hann staðið sig ágætlega. Englendingurinn kom að sautján mörkum á fyrsta tímabili sínu og svo fimmtán mörkum tímabilið á eftir.
Á þessari leiktíð hefur hann komið að tveimur mörkum í níu leikjum en hann er nú á leið aftur til Englands.
Chelsea hefur komist að samkomulagi við PSV um kaup á Madueke og mun hann kosta félagið 29 milljónir punda.
Madueke er nú að undirbúa sig undir ferðalag til Englands þar sem hann mun semja um kaup og kjör áður en hann fer í læknisskoðun. Samningur hans er til langs tíma.
Eyðsla Chelsea er því komin upp í tæpan hálfan milljarð punda frá því Todd Boehly eignaðist félagið á síðasta ári.
Athugasemdir