Roberto De Zerbi, þjálfari Marseille í Frakklandi, vill bæta við öðrum enskum framherja í hóp sinn en Eddie Nketiah, leikmaður Arsenal, er nú orðaður við félagið.
Marseille staðfesti kaupin á Mason Greenwood frá Manchester United í gær en félagið vill fá Nketiah með honum í sóknina.
Sky Sports segir að Marseille sé búið að ræða Nketiah innanbúðar og er það til skoðunar að leggja fram formlegt tilboð í leikmanninn.
Heimildarmaður Sky sagði að Nketiah væri á förum frá Arsenal í sumar en þó fer það allt eftir því hvort enska félagið fái gott tilboð í hann.
Nketiah byrjaði aðeins tíu deildarleiki með Arsenal á síðustu leiktíð, en hann á þrjú ár eftir af samningi sínum hjá Skyttunum.
Athugasemdir