Mbappe fær frest frá Real Madrid - Richarlison á óskalista Sádi-Arabíu - Madueke vill yfirgefa Chelsea
   þri 19. september 2023 17:37
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jón Þór: Rakin djöfulsins vitleysa og hugsunarvilla í undirbúningi mótsins
Lengjudeildin
watermark Jón Þór.
Jón Þór.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar.
Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Þór Hauksson, þjálfari Lengjudeildarmeistara ÍA, var gestur í Þungavigtinni í gær. Þar ræddi hann um lokaumferð Lengjudeildarinnar og úrslitakeppnina. Hann er ekki hrifinn af því fyrirkomulagi að áminningar færast með úr deildinni inn í úrslitakeppnina. Í íslensku deildunum þarf leikmaður fjögur gul spjöld til þess að fara í leikbann og svo fyrir hver þrjú gul spjöld eftir það.

Í lokaumferðinni, þar sem Fjölnir, Vestri og Leiknir voru örugg með sæti sín í úrslitakeppninni, tóku fjórir leikmenn bæði Vestra og Fjölnis út leikbann vegna uppsafnaðra áminninga. Einn leikmaður Leiknis tók út leikbann og einn leikmaður Aftureldingar. Afturelding var í séns á því að vinna Lengjudeildina í lokaumferðinni en þurfti að treysta á tap ÍA gegn Gróttu sem raungerðist ekki, liðið tapaði sjálft fyrir Þrótti og fer því í úrslitakeppnina.

„Þetta er rakin djöfulsins vitleysa og hugsunarvilla í undirbúningi mótsins. Úrslitakeppnin er bara nýtt mót, spjöldin eiga bara að hreinsast fyrir það og svo geturu farið í bann fyrir tvö gul spjöld (í úrslitakeppninni) eða hvernig sem það er. Að það sé ekkert hugsað út í þetta, að þú takir spjöldin með þér, er algjör della. Að sjálfsögðu fara lið eins og Fjölnir, Vestri og Leiknir inn í lokaumferðina hugsandi um þetta: að hreinsa spjöld," sagði Jón Þór.

„Svo til að toppa þessa vitleysu alla þá byrjar úrslitakeppnin á miðvikudaginn. Þetta er bara ótrúlegt. Nú tala ég fyrir þjálfara Aftureldingar í þessu tilviki vegna þess að ég hefði auðveldlega getað staðið í þessum sporum. Afturelding kemur inn í úrslitakeppnina á allt öðrum forsendum heldur en hin þrjú liðin. Þeir voru í toppbaráttu fram í lokaumferð og gátu þ.a.l. ekki hreinsað spjöld eða hvílt lykilmenn eins og hin liðin voru að gera. Það er beinlínins verið að refsa liðinu í 2. sæti fyrir að ná þeim árangri. Þetta er alveg ótrúleg vitleysa að mínu mati," sagði þjálfarinn.

Fimm leikmenn Aftureldingar eru á hættusvæði, þ.e. einu gulu spjaldi frá leikbanni. Það eru þeir Gunnar Bergmann Sigmarsson, Oliver Bjerrum Jensen, Bjarni Páll Linnet Runólfsson, Bjartur Bjarmi Barkarson og Ásgeir Frank Ásgeirsson. Einn leikmaður Fjölnis er á hættusvæði, Guðmundur Karl Guðmundsson, en enginn hjá Vestra eða Leikni er á hættusvæði.

Úrslitakeppnin hefst á morgun þegar Vestri tekur á móti Fjölni og Leiknir tekur á móti Aftureldingu í fyrri leikjum liðanna í undanúrslitum. Seinni leikirnir fara fram á sunnudag og svo fer úrslitaleikurinn fram á Laugardalsvelli þann 30, september.

Sjá einnig:
Spáir því að sigurvegari einvígis Fjölnis og Vestra fari upp
Athugasemdir
banner
banner