fös 20. janúar 2023 23:43
Brynjar Ingi Erluson
Maguire og Wan-Bissaka fara ekki í þessum glugga - Pellistri og Elanga gætu farið á láni
Harry Maguire verður áfram hjá Man Utd
Harry Maguire verður áfram hjá Man Utd
Mynd: EPA
Aaron Wan-Bissaka hefur staðið sig frábærlega í síðustu leikjum
Aaron Wan-Bissaka hefur staðið sig frábærlega í síðustu leikjum
Mynd: EPA
Harry Maguire og Aaron Wan-Bissaka verða áfram hjá Manchester United og spila að minnsta kosti út þetta tímabil með liðinu.

Maguire hefur ekki verið í náðinni hjá Erik ten Hag, stjóra United, frá því sá hollenski tók við liðinu síðasta sumar.

Hann hefur aðeins byrjað tvo deildarleiki síðan í september og er í dag varaskeifa fyrir þá Lisandro Martínez og Raphael Varane.

Englendingurinn var orðaður við West Ham á dögunum en United ætlar ekki að leyfa honum að fara í þessum mánuði.

Aaron Wan-Bissaka, sem er 25 ára, mun þá ekki yfirgefa félagið, en hann hefur byrjað síðustu fimm deildarleiki liðsins og staðið sig mjög vel. Hann var orðaður við Crystal Palace, en mun ekki fara þangað.

Skoski miðjumaðurinn Scott McTominay verður einnig áfram á Old Trafford, en Newcastle United hefur sýnt honum áhuga síðustu daga.

Man Utd er hins vegar opið fyrir því að lána þá Facundo Pellistri og Anthony Elanga í þessum mánuði. Elanga hefur verið orðaður við Borussia Dortmund og Everton.

Úrúgvæski vængmaðurinn Pellistri spilaði sinn fyrsta leik fyrir United í 3-0 sigrinum á Charlton Athletic í enska deildabikarnum á dögunum er hann kom inná sem varamaður og lagði upp mark fyrir Marcus Rashford.
Athugasemdir
banner
banner