sun 22. nóvember 2020 18:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Leeds átti 25 marktilraunir en náði ekki að vinna Arsenal
Mynd: Getty Images
Leeds 0 - 0 Arsenal
Rautt spjald: Nicolas Pepe, Arsenal ('51)

Leeds og Arsenal skildu jöfn þegar liðin áttust við á heimavelli fyrrnefnda liðsins í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Heimamenn í Leeds, sem komust upp í úrvalsdeildina fyrir þessa leiktíð, voru töluvert sterkari aðilinn en ekkert mark var skorað í fyrri hálfleiknum.

Í byrjun seinni hálfleiks dró til tíðinda þegar Nicolas Pepe, dýrasti leikmaður í sögu Arsenal, var rekinn af velli fyrir að skalla Ezgjan Alioski, leikmann Leeds.

Arsenal var einum manni færri það sem eftir var en Leeds náði ekki að nýta sér liðsmuninn. Bukayo Saka fékk mjög gott færi til að stela sigrinum fyrir Arsenal á 84. mínútu en Illan Mesiler sá við honum í marki Leeds. Heimamenn áttu marktilraunir sem fóru í slá og stöng í seinni hálfleiknum.

Raphinha átti skot í stöngina á síðustu mínútu uppbótartímans og var nálægt því að tryggja nýliðunum sigurinn, en allt kom fyrir ekki og markalaust jafntefli niðurstaðan.

Arsenal er með 13 stig í 11. sæti og Leeds er í 14. sæti með 11 stig. Leeds var mikið sterkari aðilinn í dag, átti 25 marktilraunir gegn níu hjá Arsenal. Leeds var þá 66 prósent með boltann.
Athugasemdir
banner
banner
banner