Ítalska félagið Spezia er í viðræðum við Breiðablik um kaup á Sveini Aroni Guðjohnsen en þetta herma heimildir Fótbolta.net.
Sveinn Aron, sem er fæddur árið 1998, er kominn með fjögur mörk í 16 leikjum í öllum keppnum á þessu tímabili og hefur greinilega heillað menn utan Íslands.
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net þá eru félögin í viðræðum en búist er við því að félagskiptin gangi í gegn á næstunni.
Þar er einnig greint frá því í ítölskum fjölmiðlum að Eiður Smári Guðjohnsen, faðir Sveins Arons, hafi skoðað aðstæðurnar í La Spezia og að hann hafi verið nokkuð ánægður með allt.
Hörður Björgvin Magnússon var á mála hjá félaginu á láni frá Juventus eitt tímabil en hann leikur nú með CSKA Moskvu.
Ekki náðist í Ágúst Gylfason, þjálfara Breiðabliks, né Eystein Pétur Lárusson, framkvæmdastjóra félagsins, við vinnslu fréttarinnar.
Athugasemdir